131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eignarskattar eru í eðli sínu afskaplega óréttlátir skattar ef þær eignir sem eru andlag eignarskattsstofnsins skila ekki neinum tekjum, hvers konar eignir sem um er að ræða.

Við hljótum að vilja að skattborgararnir skili eðlilegum hluta af tekjum sínum til samneyslunnar. Það að heimta skatta af eignum sem ekki skila arði, sem ekki skila tekjum, er fráleitt. Við höfum skattkerfi sem tekur á því. Við höfum fjármagnstekjuskattinn. Verði tekjumyndun af þessum eignum þá auðvitað skilar það fjármagnstekjuskatti. En eignarskattur er alltaf í eðli sínu óréttlátur skattur, hvernig sem á hann er litið og á ekki að eiga sér stað.