131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:59]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að taka megi undir það að eignarskattur hafi verið stilltur þannig af hér að hann hafi lent á fólki sem ekki á miklar eignir heldur kannski bara sem samsvarar venjulegri íbúð þá þýðir það ekki að eignarskattur sé þar með í eðli sínu óréttlátur. Fjarri lagi og fráleit staðhæfing hjá hv. þingmanni. Auðvitað er það ekkert fjarri lagi að einstaklingar sem eiga 100 milljónir, 500 milljónir, 1.000 milljónir eða 2.000 milljónir borgi 0,6% af þeim eignum sínum í sameiginlega velferð landsmanna. Það er bara ekkert óréttlátt við það. Og að vísa til fjármagnstekjuskattsins sem einhvers aflátsbréfs fyrir þessa stóreignamenn og sérstaka ástæðu fyrir því að alls ekki eigi að skattleggja eignir þeirra er auðvitað bara hlálegt því að fjármagnstekjuskatturinn er jú ekki neitt neitt, hann er 10%. Látum það kannski vera ef menn ákvæðu að fella niður eignarskatta upp á 2,7 milljarða og hækkuðu fjármagnstekjuskattinn til þess að fjármagna þá lækkun á móti þannig að stóreignafólkið í landinu stæði áfram undir sömu hlutdeild í velferðinni. En það er nú aldeilis ekki. Nei, afnám eignarskattsins er fjármagnað með því að skerða vaxtabæturnar í skattkerfinu sem eiga að renna til skuldugasta fólksins í landinu, fjölskyldufólksins sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er skorið um 600 milljónir í ár, 900 milljónir á næsta ári, 900 milljónir árið þar á eftir, um alls 2,5 milljarða kr. til að fjármagna afnám eignarskattsins árið 2006. Þannig er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar fyrir eignafólkið en andstæð skuldugu, ungu fjölskyldufólki í landinu.