131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:01]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rétt til að byrja með fór hv. þingmaður nokkuð frjálslega með það hvernig breyta ætti vaxtabótunum. Á næsta ári er (HHj: Það voru 600 millj. í ár.) gert ráð fyrir 300 millj. kr. niðurskurði. (HHj: … 900 millj. samtals, fara rétt með …) Hæstv. forseti. Þegar við tölum um eignarskattana er greinilegt að við hv. þingmaður getum bara ekki orðið sammála um þessa hluti. Mér finnst vera grundvallaratriði að eignir skili arði, skili tekjum til að hægt sé að heimta skatt af þeim eignum. Það verður að fara þá leið að þær hafi einhvern arð, einhverjar tekjur til þess að af þeim sé hægt að greiða skatta. Við getum alveg haft mismunandi skoðanir á þessu og mér sýnist á umræðunni að við verðum seint sammála um þetta, en að mínu mati og míns flokks þá er þetta grundvallaratriði sem skiptir máli sem réttlætismál og líka sem hagstjórnarmál. Ef við heimtum skatta af eignum sem ekki skila arði munu þær eignir einfaldlega falla í verði og þau áhrif sem það hefur á hagkerfið eru einfaldlega ekki góð. Við eigum að haga málum þannig og skattheimtunni í landinu að hjól efnahagslífsins geti snúist með eðlilegum hætti. Það gerum við ekki nema þær eignir sem við eigum, sem almenningur á, sem fyrirtæki eiga, geti skilað arði og geti þá skilað einhverju inn í samneysluna.