131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:31]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag um frumvarp ríkisstjórnarinnar, skattalækkunarfrumvarpið svokallaða, vegna þess að ég vil nota tækifærið og hrósa ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum fyrir að leggja málið fram. Þetta er líklega eitthvert besta og mikilvægasta þingmál sem fram hefur komið á Alþingi frá því síðustu kosningum lauk og hefur í för með sér miklar framfarir fyrir fólkið í landinu. Þetta er með öðrum orðum verulega gott mál og ættu allir að geta sammælst um það.

Verið er að auka kaupmátt fólksins í landinu. Verið er að auka ráðstöfunartekjur hins almenna launamanns og hins venjulega Íslendings. Það er alveg ótrúlegt að þegar ríkisstjórnin leggur til slíkar breytingar sjá sumir nánast ekkert gott við þær. Ég er að tala um þig, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hv. þingmaður hefur komið upp ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Jóhanni Ársælssyni og fleirum (Gripið fram í.) og nefnt að ekki sé rétt að lækka skattana á fólkið í landinu. Það sé ekki rétt að auka kaupmátt fólksins í landinu. Þessir menn eru á móti fólkinu í landinu, leyfi ég mér að segja. Þeir eru á móti hinum almenna launamanni sem hefur barist fyrir því að kjósa þá flokka sem nú halda um stjórnartaumana, sérstaklega með það að markmiði að lækka skatta. (Gripið fram í: Það er enginn að horfa á þig.) Þeir reyna að koma í veg fyrir að venjulegt fólk fái að ráðstafa þeim tekjum og þeim launum sem það vinnur sér fyrir í ríkari mæli en við höfum áður séð.

Ég man eftir því þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók okkur nokkra nýliða á þingi í gegn á fyrstu dögum þingsins. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Hélt því fram að við hefðum riðið inn á þingið með skattalækkunarloforð upp á vasann og gagnrýndi okkur fyrir að berjast ekki fyrir lækkun á sköttum, (Gripið fram í: Er þetta ekki Framsókn að þakka?) heldur legðum við lóð okkar á vogarskálarnar til að skattar yrðu hækkaðir. Svo lokar hv. þingmaður hurðum þegar hann heyrir þann sem hér stendur segja sannleikann. Ég verð að segja að ég sakna þess verulega að hv. þingmaður komi upp, jafnvel þó svo hann komi upp í andsvari við mig, og færi mér árnaðaróskir með að skattalækkunartillögurnar séu komnar fram. Hann má þakka fyrir það. (Gripið fram í.) Ég á minn þátt í þessum tillögum, já.

Mér finnst þessi málflutningur og þessi neikvæðni, verð ég að segja, afar furðuleg vegna svona jákvæðra breytinga í skattkerfinu og boðaðar eru með frumvarpinu.

Ég ætla ekki að víkja að öllum þáttum frumvarpsins, heldur koma aðeins að tekjuskattsþætti þess og sömuleiðis niðurfellingu eignarskattsins, vegna þess að ég tel að þau tvö atriði skipti hvað mestu máli.

Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni þegar hann mælti fyrir frumvarpinu felur það í sér að verið er að greiða arð til almennings. Menn hafa hag af hagstjórn á Íslandi. Frá árinu 1991 hafa skapast skilyrði til þess að færa fólkinu í landinu þá fjármuni sem við höfum unnið okkur inn með skynsamri hagstjórn.

Þetta eru afar jákvæðar breytingar. Ég veit ekki hvort menn átti sig á því að við erum að leggja til að gerðar verði slíkar breytingar á lögunum um tekju- og eignarskatt, að þau muni ekki heita lengur lög um tekju- og eignarskatt, heldur bara lög um tekjuskatt, vegna þess að frumvarpið felur í sér að í fyrsta skipti í býsna langan tíma verða ekki innheimtir eignarskattar af fólkinu í landinu. Þetta er mjög mikilvægt, ekki bara fyrir ráðstöfunarfé fólks heldur fyrir þjóðfélagið og hagkerfið.

Við verðum að athuga að á Íslandi eru ekki bara fyrirtæki sem eru í samkeppni við önnur erlend fyrirtæki. Ísland er í samkeppni við aðrar þjóðir, ekki bara um að fá hingað fyrirtæki og fólk, heldur erum við líka að berjast fyrir því að mennta fólk og halda því í landinu og skapa hér verðmæti. Það er náttúrlega best gert með því að fólk hafi tækifæri til þess að láta gott af sér leiða og framleiða einhver verðmæti, bæði fyrir sig og þjóðfélagið. Það er því alveg ljóst að eftir því sem jarðvegurinn er betri fyrir fólk í landinu gerir það landið samkeppnishæfara gagnvart öðrum löndum. Að þessu eigum við að stefna og það er gert í frumvarpinu.

Farið hefur verið yfir það af öðrum fylgismönnum frumvarpsins að það felur í sér lækkun á tekjuskatti og reyndar öðrum sköttum. Það hefur verið sýnt fram á það með góðum rökum að skattalækkunin muni gagnast öllum landsmönnum vel. Hún eykur kaupmátt fólks og það er fagnaðarefni fyrir okkur sem viljum lækka skatta. Sama má segja um afnám eignarskattsins, sérstaklega fyrir eldra fólk og ellilífeyrisþega, sem margir hverjir eru hættir að vinna og hafa þar af leiðandi lágar tekjur en sitja í skuldlausum eignum sem er þeirra lífeyrir og menn hafa komið sér upp í gegnum tíðina, en hafa þurft að greiða skatta af lífeyrinum vegna álagna sem eignarskatturinn kveður á um.

Ég verð að segja að eignarskatturinn eins og hann hefur verið er einhver ósanngjarnasta skattheimta sem ríkið stendur fyrir samkvæmt núgilandi löggjöf. Hvernig má það teljast sanngjarnt að maður sem hefur unnið alla sína hunds- og kattatíð við að reyna að koma sér upp húsnæði, hefur aflað sér tekna og greitt skatt af tekjum sínum, byggt sér hús og greitt söluskatt í gamla daga en nú virðisaukaskatt af byggingarefni hússins, og loksins þegar hann er búinn að koma sér þaki yfir höfuðið og greiða niður áhvílandi lán er hann skattlagður ofan á allt saman fyrir að eiga eignina.

Það er þetta sem ég á við, herra forseti, þegar ég held því fram að eignarskatturinn er einhver ósanngjarnasti skattur sem fyrirfinnst í íslenska skattkerfinu. Það er sérstakt fagnaðarefni að hann verði afnuminn með frumvarpinu.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hafa tekið þátt í umræðunum hafa sagt að þær breytingar sem frumvarpið mæli fyrir um lýsi kolrangri forgangsröðun og varpi ljósi á ranglæti ríkisstjórnarinnar í garð einstaklinganna. Þetta er nú dálítið sérstök skoðun. Ranglátt að mati stjórnarandstöðunnar að ríkisstjórnin ætli að lækka skatta á fólkið í landinu, leyfa því frekar að ráða því hvernig það ver sjálfsaflafé sínu, frekar en að hv. þingmenn, Össur Skarphéðinsson og fleiri sem hér eru, seilist ofan í vasa borgaranna. Ég get ekki séð að það sé nokkurt ranglæti falið í þessu, heldur sé þetta fyrst og fremst afar jákvæð þróun.

Svo er því haldið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að breytingarnar séu glapræði við þær aðstæður sem nú eru uppi. Að það sé glapræði að lækka skatta. Við höfum heyrt hv. þm. Steingrím J. Sigfússon segja það, ekki bara í umræðum heldur líka í opinberri umræðu í fjölmiðlum. Þær munu kynda undir viðskiptahalla, leiða til aukinnar verðbólgu og guð má vita hvað. Þegar maður hlustar á þennan málflutning mætti halda að menn væru að fara með þjóðfélagið til fjandans með því að lækka tekjuskatta einstaklinga um 4% og fella niður eignarskatt og grípa til annarra þeirra aðgerða sem fram koma í frumvarpinu. Af hverju geta menn ekki, þó þeir séu í stjórnarandstöðu, séð sóma sinn í því að hæla því sem vel er gert og tekið undir það. Hvernig dettur fólki í stjórnmálum sem starfar á Alþingi í hug að halda því fram að slíkar breytingar feli í sér ranglæti? Ég ráðlegg þessum tilteknu herramönnum að tala við auglýsingastofurnar sínar sem þeir hafa treyst svo hressilega á í gegnum tíðina í pólitík sinni og velta því fyrir sér hvort þetta sé nú skynsamlegt.

Af því ég nefndi verðbólguna hafa menn verið að tala um að óskynsamlegt sé að lækka skatta vegna þess að það kunni að leiða til hækkunar á verðbólgu. Þetta hefur heyrst frá forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Kannski er rétt að fara yfir það, eins og einhverjir vita, að verðbólga myndast þegar verð á vöru og þjónustu er hækkuð. Það gerist fyrst og fremst þegar kostnaður fyrirtækja hækkar og þau velta þeim kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Slíkt leiðir til verðbólgu.

Skattalækkanir hækka engan kostnað. Þær valda að vísu því að fólk á meiri pening og hefur meiri pening á milli handanna. Við það eykst hugsanlega eftirspurn. En á flestum sviðum, a.m.k. þar sem virk samkeppni ríkir, eykst framboð á móti án þess að það leiði til sérstakra kostnaðarhækkana. Aðeins þar sem framboðið er takmarkað er kannski hætta á verulegum kostnaðarhækkunum. Það er dálítið furðulegt þegar maður hlustar á varnaðarorð manna í stjórnarandstöðunni sem hafa tekið þátt í umræðunni, hvað þeir eru ótrúlega smeykir við verðbólguáhrif af 4% skattalækkun en hafa engar áhyggjur af u.þ.b. 30% kauphækkun einstakra stétta í þjóðfélaginu. Það skiptir þá allt í einu engu máli. En 4% skattalækkun er stórhættuleg.

Ég kannast reyndar ekki við, herra forseti, að margir málsmetandi menn í þjóðfélaginu hafi tekið undir þennan málflutning stjórnarandstöðunnar um að skattalækkanir séu af hinu slæma og kunni að leiða til verðbólgu.

Ég hef meira að segja heyrt ýmsa hagfræðinga og aðra fræðimenn og jafnvel þátttakendur í atvinnulífinu tjá sig um þessi mál og þar á meðal um gagnrýni formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Ég leyfi mér að nefna það sem dæmi að Guðmundur Ólafsson hagfræðiprófessor taldi það fráleitt og að það styddist ekki við neinar hagfræðikenningar að hagkerfið mundi brenna yfir eða það mundi leiða til aukins viðskiptahalla og verðbólgu að lækka skattana um 4%. Þetta væru pólitískar yfirlýsingar sem stæðust ekki þegar menn skoðuðu málið í heildarsamhengi, þær væru einfaldlega ekki nógu miklar, ekki nógu stór hluti af öllu efnahagskerfinu til þess að þær mundu leiða til slíkrar dómadagsniðurstöðu eins og formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa haldið fram.

Ég ætla að leyfa mér líka að vísa í það sem Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í viðtali í Morgunblaðinu í gær í tilefni af því frumvarpi sem hér er til umræðu. Hann mælti nefnilega nokkuð viturlega þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Manni kemur það nokkuð spánskt fyrir sjónir að sumir telji það vera mjög glannalegt að auka almennan kaupmátt á næstu árum um fjögur og hálft prósent með skattalækkunum. En sömu aðilar telja eðlilegt að það verði tuga prósenta launahækkanir á vinnumarkaðinum.

Ég held að það sé alveg augljóst að sá kaupmáttur sem fólk fær með skattabreytingum veldur ekki meiri þenslu heldur en sá kaupmáttur sem fólk fær út úr kauphækkunum.

Með sama hætti má fjalla um skattheimtu og ríkisútgjöld. Menn tala um að það sé mikill þensluvaldur ef fleiri krónur eru skildar eftir hjá fólkinu sem vinnur fyrir þeim en að þessar krónur muni ekki valda þenslu ef þær verða teknar í skatta og nýttar af ríkinu í gæluverkefni og áhugamál sem þessir sömu menn hafa sem gagnrýna þetta. Mér finnst það vera pólitískt sjónarmið en ekki hagfræðilegt að gefa sér slíkt. Það er ekkert hægt að útiloka að fólkið fari skynsamlegar með féð en ríkið. Það gæti t.d. tekið upp á því að spara meira eða greiða niður skuldir.“

Herra forseti. Þetta er hárrétt og einmitt kjarninn í því sem ég hef verið að segja og fleiri fulltrúar stjórnarflokkanna í þessum umræðum. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna og fulltrúar þeirra hafa hins vegar haldið öðru fram og enginn í þjóðfélaginu hefur verið tilbúinn til þess að taka undir það.

Fyrst að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er kominn í salinn ætla ég að víkja að enn fleiri röksemdum sem fram hafa komið af hálfu stjórnarandstöðunnar gegn skattalækkunum og gegn kaupmáttaraukningu fólksins í landinu.

Stjórnarandstaðan (Gripið fram í.) hefur komist að þeirri niðurstöðu, herra forseti, að það sé ómögulegt að lækka tekjuskatt einstaklinga því að skatturinn lækki lítið hjá þeim einstaklingum sem greiði engan eða lítinn tekjuskatt og þess vegna eru þeir andsnúnir frumvarpinu.

Þessi rök stjórnarandstöðunnar gegn skattalækkunum eru raunar ekki þau einu. Hún telur núna, eins og reyndar oft áður, að það sé ekki rétti tíminn til að lækka skatta. Það hefur heldur betur komið fram í umræðunum að ekki sé rétti tíminn til að lækka skatta.

Hin altæka skattstefna stjórnarandstöðunnar gengur út á að það megi ekki lækka skatta í góðæri því að þá aukist þenslan, ekki satt? (Gripið fram í: Og ekki heldur í hallæri.) Nei, það má heldur ekki gera það í hallæri vegna þess að þá er tekjuhlið ríkissjóðs ógnað. Ekki má heldur gera það í jafnvægi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, vegna þess að þá raskast jafnvægið, ekki satt?

Niðurstaðan er því sú að það má aldrei lækka skatta, miðað við þann málflutning sem við höfum hlustað á, að það séu aldrei réttu aðstæðurnar, þær einfaldlega geta ekki komið upp (Gripið fram í.) ef það er eitthvað að marka það sem stjórnarandstöðuþingmenn hafa sagt í umræðunum í dag og ekki bara (Gripið fram í.) í dag heldur síðustu vikur og mánuði.

Stjórnarandstaðan, og þá kannski sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar, hafa stundum nefnt jaðaráhrif í skattkerfinu í umræðum um skattamál. Þetta þekkir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Með miklum jaðaráhrifum er átt við það að hver viðbótarkróna sem menn vinna sér inn skili litlu í vasann fyrir tekjuskattshlutfallið vegna þess að tekjuskattshlutfallið er svo hátt og að auki lækki vaxtabætur, barnabætur og afborganir námslána hækki. Þegar upp er staðið á maður sem leggur á sig meiri vinnu til þess að geta farið í utanlandsferð með fjölskyldunni varla fyrir bleyjupakkanum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson er alltaf að minnast á, vegna þessara jaðaráhrifa. Hann á í besta falli möguleika á að kaupa sér tveimur fleiri bíómiða fyrir launin sín. Þetta þekkir hv. þingmaður. (Gripið fram í.)

Ég tel, herra forseti, af því að ég nefndi jaðaráhrifin að það sé alveg ljóst að langbesta leiðin til að draga úr þeim sé að lækka tekjuskattshlutfallið. Það er sú leið sem ég tel skynsamlegasta til að lækka þessi jaðaráhrif.

En af því að ég vék að því áðan þá langar mig til að víkja að spurningunni: Græða hátekjumenn ekki mest á lækkun á tekjuskattshlutfallinu? Þeir fá mest sem eiga mest, er söngurinn sem hefur hljómað í þingsalnum í allan dag. Er ekki verið að færa ríka liðinu mest með þessari breytingu?

Ef menn líta þannig á málin, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði hér fyrr í umræðunni þegar hann spurði hverjum væri verið að færa þessar gjafir, og átti þá við lækkunina á tekjuskattinum, að ríkið eigi allar tekjur manna í landinu og færi þeim síðan góðfúslega hluta þeirra til baka um hver mánaðamót þá má kannski svara þessari spurningu játandi. Þá má segja að ríkið sé að færa manni með 500 þús. kr. á mánuði fleiri krónur en manninum sem er með 100 þús. kr. á mánuði með því að lækka tekjuskattshlutfallið. Það er allt í lagi ef menn líta þannig á það. En ég vil þrátt fyrir allt leyfa mér að líta svo á að einstaklingarnir sjálfir eigi þær tekjur sem þeir afla en ríkið og sveitarfélögin taki hluta þeirra tekna með lagaboði, með skattheimtu, með valdi. Ég tel því að nálgun á borð við þá sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem aðrir hafa reyndar tekið undir, sé algjörlega röng í þessu sambandi.

Það skortir á eitt í umræðunni þegar menn nefna þetta, að þeir sem hafi mest fái mest út úr lækkuninni. Það er alltaf gengið út frá því að allir þjóðfélagshópar greiði sama skattinn, að láglaunamaðurinn greiði jafnháan skatt og hátekjumaðurinn. En er það svo? Ef menn skoða og reikna út hversu hátt hlutfall launa menn borga í skatt eftir tekjum þá sjá menn að maðurinn með 100 þús. kr. í laun borgar 8% af launum sínum í skatt. 150 þúsund króna maðurinn borgar 17,2% í skatt. 500 þúsund króna maðurinn greiðir 30% í skatt og milljón króna maðurinn greiðir 32,7% í skatt.

Þessar viðmiðanir eru aldrei teknar inn í umræðuna þegar við ræðum um skatta. Það er alltaf almennt litið þannig á að allir greiði jafnháa skatta. Svo er alls ekki og við vitum af hverju það er. Þegar þessar tölur eru skoðaðar, og mér finnst rétt að varpa þeim fram í umræðuna, þá kemur í ljós að maður með 500 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir átjánfaldan skatt þess manns sem er með 100 þús. kr. á mánuði þótt laun hans séu aðeins fimmfalt hærri í krónum talið. Maður með 1 milljón á mánuði greiðir nær þrettánfaldan skatt þess sem hefur 150 þús. kr. í laun á mánuði þótt laun hans séu rúmlega sexfalt hærri. Við sjáum að því hærri tekjur sem menn hafa því hærra hlutfall launa sinna greiða menn í skatt.

Ég leyfi mér því að segja, í ljósi þess sem fram hefur komið í umræðunni, að skattstefna ríkisstjórnarinnar, eins og hún kemur fram í þessu frumvarpi og hefur komið fram á síðustu árum, sé alls ekkert ósanngjörn og allra síst í garð þeirra sem hafa lág laun. Það er fráleitt að halda því fram að verið sé að færa á silfurfati þeim sem mest hafa langmestar kjarabætur. Það eru þeir hópar sem greiða langhæsta skattinn, bæði þegar við skoðum það í hlutfalli og sömuleiðis þegar menn meta skatttekjur eftir fjárhæðum í krónum talið. Það hefur algjörlega skort að minnast á þetta í umræðunni.

Menn gleyma því náttúrlega alltaf, sérstaklega þingmenn stjórnarandstöðunnar, að gera sér grein fyrir því hve háar þessar fjárhæðir eru sem menn greiða í skatta. Ég er ekki að segja að þeir geri það ekki brosandi, ég er ekki að segja það. En vanþóknunin á skattgreiðslum þeirra sem eru á góðum launum finnst mér algjörlega yfirþyrmandi, a.m.k. ef marka má ummæli þeirra sem hér hafa tjáð sig og fundið skattalækkunum á þá allt til foráttu.

Kjarninn í gagnrýni stjórnarandstöðunnar er sá að stjórnarandstaðan er á móti hlutfallslegri lækkun skatta. Það liggur fyrir. Þeir telja einfaldlega óeðlilegt að slík lækkun sé látin viðgangast vegna þess að þeir sem hafa hæstar tekjur græði flestar krónur á lækkuninni. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt og ekki ný gagnrýni í skattapólitík og reyndar á öðrum sviðum. Ég gæti nefnt fullt af dæmum.

Auðvitað veltir maður því fyrir sér hver málflutningur stjórnarandstöðunnar væri ef við værum ekki að lækka skatta. Hvað ef við værum að hækka þá, ef hér lægi fyrir frumvarp til laga um skattahækkanir? Ef stjórnarandstaðan væri samkvæm sjálfri sé þá væri hún væntanlega líka á móti hlutfallslegri hækkun skatta, ekki satt? Hún mundi væntanlega krefjast þess, í ljósi þess sem komið hefur fram varðandi skattalækkanir, að allir greiddu jafnháa fjárhæð við skattahækkanir. En auðvitað hefur lítið farið fyrir slíkum málflutningi hjá stjórnarandstöðuþingmönnum og auðvitað mundu þeir ekki þora að viðurkenna slíkt ef til þeirra aðstæðna mundi koma.

Ég hef t.d. ekki orðið var við að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi haldið þessum málflutningi fram, t.d. varðandi þær skattahækkanir sem nú eiga sér stað í Reykjavík. Ég kannast reyndar ekki við að hv. 1. þm. Reykv. n. hafi haft eitthvað við þær skattahækkanir að athuga, ekki frekar en þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa ekki einu sinni séð — reyndar er enginn þeirra hér núna — séð sóma sinn í að gagnrýna 42% hækkun á leikskólagjöldum í Reykjavík, þrátt fyrir að koma upp á tyllidögum og krefjast gjaldfrjálsra leikskóla.

Menn hljóta að sjá, þegar hlutunum er stillt svona upp, hversu innihaldslítill og tækifærissinnaður málflutningur stjórnarandstöðunnar er í þessu máli.

Herra forseti. Ég held að ég láti staðar numið. Ég taldi rétt að koma þessum atriðum á framfæri í þessu máli. Ég leyfi mér að segja að lokum að hér er á ferðinni mjög jákvætt og gott mál sem eykur kaupmátt fólksins í landinu. Það má segja að frumvarp sem kveður á um svo drastískar breytingar í skattumhverfinu sé sérstakt fagnaðarefni. Ég lýsi yfir furðu minni á því að hér á þingi sitji menn sem telja sig vilja veg launamanna sem mestan en að þeir skuli ekki geta tekið undir þær hugmyndir sem fram koma í þessu frumvarpi.