131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veggjöld.

149. mál
[12:04]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um veggjöld. Ég spyr í fyrsta lagi:

Hvenær kemur til framkvæmda boðuð lækkun virðisaukaskatts á veggjald í Hvalfjarðargöngum og hvaða aðgerðir hefur ráðherrann í undirbúningi til að lækka gjaldið eða fella það niður?

Um lækkun virðisaukaskattsins liggja fyrir ítrekaðar yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Hann sagði m.a. í svari við fyrirspurn frá mér 5. desember í fyrra, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar ljóst að ég hef verið mikill áhugamaður um að Spölur lækkaði þetta gjald. Til viðbótar hef ég lýst því yfir að þegar gengið verður í að lækka virðisaukaskattinn falli gjaldið þar undir lægra þrepið eins og að er stefnt.“

Hvar í ósköpunum er þessi hluti málsins staddur? Heldur Framsókn málinu í gíslingu eða var ekki innstæða fyrir yfirlýsingum hæstv. ráðherra? Það er kominn tími til að standa við loforðið. Hvenær verður það efnt?

Hæstv. forseti. Fram kom í skýrslu nefndar sem hæstv. ráðherra skipaði að hægt væri að fara ýmsar aðrar leiðir til að lækka gjöldin í göngin, m.a. mætti yfirtaka hamfaratryggingu og hryðjuverkaárásartryggingu sem eru á göngunum og fá þannig fram lækkun á gjaldinu fyrir að nota þau. Hefur hæstv. ráðherra uppi ráðagerðir um það, og hverjar eru þær? Hæstv. ráðherra hefur ítrekað sagt að hann teldi að Spölur gæti lækkað gjaldið á eigin spýtur og hann sendi þeim framsýnu ágætismönnum sem það fyrirtæki reka heldur betur kveðjurnar í Brennidepli fyrir tveimur dögum. Þar sagði hann að þeir þyrftu að taka til í eigin ranni. Það sæmir ekki ráðherra að hafa uppi dylgjur á opinberum vettvangi — hvað átti hæstv. ráðherra nákvæmlega við með þessum orðum sínum?

Fyrir liggja yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að hann sé á móti yfirtöku ríkisins á hlutverki Spalar í Hvalfjarðargöngum og þar með niðurfellingu veggjalds en að hann hafi til skoðunar almenna stefnumörkun um gjaldtöku af umferðarmannvirkjum. Ráðherrann boðaði að tíðinda af þessum málum yrði að vænta upp úr síðustu áramótum. Ég spyr þess vegna í öðru lagi:

Hverjar eru niðurstöður stefnumörkunar um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja, þ.e. veggjöld, sem ráðherra sagði í vor líka að mundi liggja fyrir á þessu hausti?

Hvað er eiginlega að frétta af starfshópnum sem var í þessu verkefni? Áramótin eru löngu liðin og sumarið líka. Hverjar eru tillögur hópsins? Af hverju hefur hæstv. ráðherra ekki gert samgöngunefnd Alþingis grein fyrir tillögunum eins og hann lofaði? Mundu tillögurnar tryggja að eitt verði látið yfir alla ganga hvað veggjöld varðar eins og ráðherrann sagði að ætti að gera?

Fyrirspurninni er ætlað að gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að upplýsa um þessi mál og útskýra af hverju þau ganga (Forseti hringir.) svo undurhægt hjá honum.