131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veggjöld.

149. mál
[12:15]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það væri stórkostleg byggðaaðgerð fyrir allt Vesturland ef gangagjöldin yrðu felld algerlega niður en það var líka stórkostleg byggðaaðgerð fyrir allt Vesturland þegar þessi göng voru gerð. Þessi göng voru gerð fyrir tilstilli einkaframtaks og ríkið hefði aldrei farið út í þessa framkvæmd, við skulum gera okkur grein fyrir því.

Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir að hafa komið með mjög merkilegar upplýsingar um fjármögnun ganganna, hugsanlega hagræðingu sem hægt er að fara í og endurfjármögnun. Þetta voru mjög merkilegar tölur sem við fengum að heyra áðan. Þetta þarf að skoða betur einmitt til að leita leiða til að lækka gjaldið í þessi göng en ég er alfarið á móti því að gjaldið verði fellt niður, því það er alveg rétt sem hæstv. samgönguráðherra benti á, ef það verður gert þá mun aldrei aftur verða farið í svona framkvæmdir vegna þess að ríkið mun ekki þora að taka þá áhættu að fá þessi verkefni í hausinn eftir nokkur ár. Það er verið að gera kröfur um að ríkið taki alfarið við þessum framkvæmdum og beri síðan kostnaðinn af þeim. Það mun bitna á öllum öðrum samgöngubótum í landinu. Við skulum athuga það og gera okkur grein fyrir því.