131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fjarskiptasamband við Ísafjarðardjúp.

310. mál
[12:25]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: Hvernig hyggst ráðherra mæta óskum og undirskriftalistum íbúa við Ísafjarðardjúp um bætt fjarskiptasamband og möguleika á ISDN-tengingu?

Svar mitt er þetta: Umræddur undirskriftalisti beinist ekki að samgönguráðuneytinu heldur að Símanum og hann hefur því ekki borist ráðuneytinu. Hins vegar hefur ráðuneytinu borist bréf frá Súðavíkurhreppi, dagsett 5. nóvember, þar sem bókun sveitarstjórnar um umræddan undirskriftalista bænda við Ísafjarðardjúp er kynnt. Í bréfinu er vísað til ákvæða fjarskiptalaga um alþjónustu og þar segir að hreppnum hafi borist undirskriftalisti frá íbúum og aðstandendum atvinnufyrirtækja við Djúp, dagsettur 14. október sl. Með listanum er skorað á Símann að bregðast við og bjóða viðunandi internettengingar.

Samkvæmt 19. gr. fjarskiptalaganna nr. 81/2003, er kveðið á um að allir notendur eigi rétt á alþjónustu óháð staðsetningu með þeim undantekningum sem kveðið er á um í öðrum ákvæðum laganna. Alþjónustuskylda er ekki án undantekninga. Ef Síminn, sem falið hefur verið af stjórnvöldum að veita alþjónustu hér á landi, sér sér ekki fært að veita tilteknum alþjónustu svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis þá skal ágreiningur um þá synjun borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til ákvörðunar. Stofnunin getur bæði ákveðið lágmarksgæði alþjónustu og í sérstökum tilfellum veitt þjónustuveitanda undanþágu frá henni samanber 4. mgr. 19. gr.

Lögin kveða á um rétt notenda m.a. á alþjónustu, a.m.k. 128 Kb flutningsgetu eins og íbúarnir óska eftir. Ef Síminn treystir sér ekki til að veita þá þjónustu sem honum hefur verið falið að veita vegna þess að þjónustan er rekin með tapi, er óarðbær eða í henni felst óeðlileg kvöð getur fyrirtækið sótt um að því verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Beiðninni á fyrirtækið að koma á framfæri við Póst- og fjarskiptastofnun. Áskorun undirskriftalistans beinist að Símanum og er málið væntanlega enn þar til umfjöllunar. Hafni fyrirtækið þessari málaleitan íbúa Súðavíkurhrepps geta þeir skotið því til Póst- og fjarskiptastofnunar. Ef Síminn er ekki nógu burðugur til að veita þjónustuna án fjárframlaga getur hann sótt um fjárframlög til þess að tryggja eðlilegt endurgjald fyrir þjónustuna, ef rökstuddar ástæður eru fyrir því að mati Póst- og fjarskiptastofnunar sem á að fjalla um slíkt erindi. Málið er því í eðlilegum farvegi og verður útkljáð samkvæmt lögbundnu stjórnsýsluferli.

Þessi ágæta fyrirspurn vekur athygli á hversu mikilvægt þetta ákvæði er í fjarskiptalögunum, þetta einstaka íslenska ákvæði. Stundum er talað um að það sé af hinu vonda að hafa íslenskt ákvæði (Gripið fram í.) en þetta íslenska ákvæði um alþjónustuna er afar mikilvægt fyrir þessar dreifðu byggðir og tryggir mikilvæga þjónustu eins og sést af því að innan við 100 bæir, eða um það bil 70, eru núna án þessarar þjónustu. Sumir hafa ekki sótt um hana.