131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fjarskiptasamband við Ísafjarðardjúp.

310. mál
[12:29]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta ástand fjarskiptamála mjög ámælisvert, ekki bara við Ísafjarðardjúp heldur á Vestfjörðum almennt. GSM-samband er úti á mjög stórum svæðum við Djúpið en líka á mjög stórum svæðum á sunnanverðum Vestfjörðum. Mér finnst það jaðra við hneyksli að þetta fyrirtæki, Landssíminn, sem er í eigu ríkisins, skuli ekki fyrir löngu hafa tryggt þó ekki væri nema GSM-samband á þessum stöðum. Það er orðið mjög erfitt að fá NMT-síma í dag. Þeir eru nánast orðnir ófáanlegir, t.d. í verslunum. Það er hætt að framleiða þá hjá mörgum fyrirtækjum og þetta kerfi virðist vera á útleið. Það er því sjálfsögð krafa að þetta verði lagað hið fyrsta því það eru ekki bara íbúarnir á þessum svæðum sem nota vegina á sunnanverðum Vestfjörðum eða við Ísafjarðardjúp, heldur allir landsmenn. Fólk sem borgar áskriftir í GSM-kerfinu á skýlausan rétt og kröfu á því að GSM-samband sé a.m.k. á helstu þjóðvegum landsins.