131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fjarskiptasamband við Ísafjarðardjúp.

310. mál
[12:30]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra vakti réttilega athygli á lagaákvæði sem veitir íbúum tiltekna vörn í þessu samhengi eða táfestu til að sækjast eftir þjónustu af þessu tagi. Við skulum vona að Síminn greiði fljótt og vel úr málinu og ef ekki að Póst- og fjarskiptastofnun hlutist til um framgang málsins.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég er ákaflega óánægður með framgang mála, bæði þarna og víðar á landinu. Við rekum fyrirtæki sem skilar um 2 milljörðum kr. á ári í hagnað. Ríkið á þetta fyrirtæki. Eigandinn getur sagt fyrirtækinu fyrir verkum. Hvað er í veginum fyrir því að eigandinn segi stjórnendum þessa fyrirtækis: Við ætlumst til þess að þið byggið upp þetta kerfi? Það þýðir væntanlega að fyrirtækið skilar minni hagnaði í ríkissjóð á því ári sem menn leggja fé út fyrir því. En er það bara ekki allt í lagi? Það er, eins og fram kom í máli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, algerlega óviðunandi ástand við Ísafjarðardjúp, ekki bara í þessu sem um er spurt heldur líka GSM… (Forseti hringir.) Sama gildir um fjallveginn þar fyrir austan, Steingrímsfjarðarheiði, að þar næst ekki einu sinni símasamband.