131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fjarskiptasamband við Ísafjarðardjúp.

310. mál
[12:31]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem tveir síðustu ræðumenn sögðu. Ég held að það sé full ástæða til þess, og vitna þá til orða síðasta ræðumanns, að beita þessu fyrirtæki meðan það er í eigu ríkisins. Enginn veit hvenær því ferli lýkur. Það hefur lengi staðið til að selja fyrirtækið en ekkert hefur bólað á niðurstöðum með það enn þá. Þá eru menn að borga úr öðrum vasanum en ekki hinum, því að ef þetta á að fara í gegnum Póst- og fjarskiptastofnun þá verður það auðvitað fjármagnað úr ríkissjóði sem bæta þarf við. Þá kemst kannski reynsla á þetta íslenska ákvæði sem hæstv. ráðherra er hreykinn af. En það tekur langan tíma að fá niðurstöðu í málin með þeim hætti. Það er alveg skelfilegt að þetta símafyrirtæki, stóra öfluga fyrirtæki, skuli ekki ganga í önnur mál eins og GSM-símasamband í landinu.