131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fjarskiptasamband við Ísafjarðardjúp.

310. mál
[12:33]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér er mikið kappsmál að nettenging og GSM-samband komist á við Ísafjörð og alla Vestfirði. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að í bréfinu frá íbúunum kom fram að þeir sendu fyrsta erindi sitt til Símans fyrir þremur árum. Þeir hafa ekki fengið svar við því enn. Ráðherra er ráðherra póst- og símamála og því er ástæða til þess að hann láti málið til sín taka. Enn fremur hefur undirskriftalisti viðkomandi íbúa, að því er ég best veit, borist öllum þingmönnum kjördæmisins. En það er kannski ekki aðalmálið.

Aðalmálið er að taka á vandanum og leysa úr honum. Það kemur fram í síðasta Bændablaði að um 70 bæir á landinu séu án viðunandi nettengisambands og af þeim séu 45 á Vestfjörðum.

Síminn skilar á þriðja milljarð króna í arð til ríkisins á þessu ári. Það ætti ekki að vera erfiðleikum bundið hjá Símanum að ljúka þessu dæmi. Mér finnst það hálfaumingjalegt að fyrirtæki sem er búið að þjóna landsmönnum með þessum hætti um áratuga bil, afar fólksins hafa sjálfsagt borið út símastaurana frítt fyrir Símann á sínum tíma. (Samgrh.: Örugglega ekki.) Þetta er þjóðareign, Síminn. Sú þjónusta sem hann veitir á að veitast öllum landsmönnum. Ég treysti á hæstv. samgönguráðherra, sem ég veit að er mikill áhugamaður um að þessi mál komist í lag, fjarskiptaþjónusta um allt land, athugi þetta mál og beiti sér í því þannig að góð lausn fáist á því.