131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Forvarnir í fíkniefnum.

102. mál
[12:38]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Forvarnir í fíkniefnamálum eru að mörgu leyti í ólestri hérlendis. Allt of mikið er lagt upp úr refsingum og of lítil áhersla lögð á forvarnir. Ég er sannfærður um að aðeins sé hægt að ná árangri í baráttunni gegn fíkniefnum með því að slá á eftirspurnina eftir eitrinu. Harðari refsingar virðast einungis færa óhugnaðinn enn neðar í undirheimana.

Í tilefni af stöðunni og vegna hástemmdra loforða Framsóknarflokksins árið 1999, um milljarð í baráttuna gegn fíkniefnum, spurði ég heilbrigðisráðherra síðastliðið vor um stöðu mála. Svarið sem var skriflegt barst rétt fyrir þingslit í vor og kom mér mjög undarlega fyrir sjónir. Í ljós kom að framlög til bæði forvarna og meðferðar eru afar lág og ekkert bólar á milljarðinum umtalaða.

Framsóknarflokkurinn lagði mikið upp úr þessu kosningaloforði sínu árið 1999, marglofaði þessum milljarði og hægt er að fullyrða að hann hafi fengið töluvert magn atkvæða út á þetta kosningaloforð sitt enda er málið grafalvarlegt og snertir margar fjölskyldur í landinu. Því er kominn tími til að inna Framsóknarflokkinn, fimm árum síðar, eftir efndum í málinu og spyrja hreinlega: Var flokkurinn að blekkja kjósendur þegar hann lofaði milljarði aukalega til fíkniefnabaráttunnar, baráttunnar gegn fíkniefnum? Ekkert bólar á því og því spyr ég hæstv. ráðherra: Stendur til að auka útgjöld til forvarna í fíkniefnamálum um 1 milljarð kr., samanber svar ráðherra við fyrirspurn minni í vor? Í svari ráðherra kemur í ljós að framlög til forvarna í svokallaðan Forvarnasjóð eru hverfandi og lág. Miðað við allt tal um milljarð króna þá stinga þær upphæðir í augu. Þar er um að ræða 78 millj. kr. árið 2003. Sorglega lága upphæð.

Ástandið í fíkniefnamálum og málum eiturlyfjasjúklinga er alvarlegt. Starf SÁÁ er í uppnámi og það gerist á vakt Framsóknarflokksins, flokksins sem lofaði milljarði í baráttuna gegn fíkniefnum.

SÁÁ stendur frammi fyrir því að draga verði úr bráðamóttöku og hætta að taka inn unga eiturlyfjafíkla. Starf SÁÁ er sem sagt í uppnámi, framlög til forvarnamála lítil og hverfandi og meðferðarúrræðum fækkar. Ástandið í þessum málum er grafalvarlegt en flokkurinn sem fór fram með það sem eitt af sínum meginmálum í kosningunum 1999 að lofa milljarði í baráttuna gegn fíkniefnum skal fá að svara fyrir það. Nú er komið að efndum.