131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Forvarnir í fíkniefnum.

102. mál
[12:40]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er tilgangurinn með þessari fyrirspurn greinilega að hefja upp pólitíska umræðu um kosningaloforð árið 1999.

Fyrirspurnin sem hann beinir til mín er um það hvort til standi að auka útgjöld til forvarna í fíkniefnamálum um 1 milljarð kr. Í fyrirspurninni vísar þingmaðurinn beint í svar mitt fyrir fyrirspurn hans frá því í fyrra um framlög til forvarna.

Til að fyrirbyggja misskilning þá tek ég strax fram að það kom ekki fram í svari mínu við fyrirspurn þingmannsins í fyrra að heilbrigðisráðuneytið hygðist auka útgjöld til forvarna um 1 milljarð kr. Það hefur verið gert. Það er hægt að fara yfir það hvenær sem er að þingmaðurinn fer með rangt mál í þessu efni.

Í svarinu komu hins vegar fram allar þær upplýsingar sem mér sem heilbrigðisráðherra var unnt að veita um þessi efni og óþarft að endurtaka þau svör hér. Forvarnir vegna fíkniefnamála heyra ekki aðeins undir heilbrigðisráðuneytið og stofnanir þess. Dómsmálaráðuneytið gegnir t.d. veigamiklu hlutverki í þessum málaflokki. Sama má segja um félagsmálaráðuneytið og stofnanir þess. Það er ekki á mínu valdi að svara fyrirspurn hv. þingmanns umfram að sem ég hef áður gert í svari við fyrrnefndri fyrirspurn á síðasta þingi.

Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni vegna þess margþætta vanda sem felst í reglulegri neyslu fíkniefna og því óhugnanlega umhverfi glæpa og ofbeldis sem tengist neyslu þeirra. Trúlega munu alltaf einhverjir segja að of litlu fé sé varið í þennan málaflokk, sama hver upphæðin er, meðan þessu vandamáli hefur ekki verið útrýmt. Sú barátta er hörð en við megum ekki láta undan síga í þeirri baráttu og það verður ekki gert.