131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Afsláttarkort.

108. mál
[12:51]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Samkvæmt sjúkratryggingum almannatrygginga er komið til móts við sjúklinga sem hafa mikinn heilsugæslu- eða lækniskostnað þannig að þegar þeir hafa greitt ákveðið hámark fullu verði geta þeir sótt um afsláttarkort sem gildir út almanaksárið. Fyrir einstaklinga eru það 18 þús. kr. sem þeir greiða fullu verði, fyrir lífeyrisþega 4.500 og fyrir öll börn í fjölskyldu 6 þús. kr. Til að fá afsláttarkortið þarf sjúklingur að safna saman kvittunum, svokölluðum bleikum miðum, vegna lækniskostnaðarins.

Sumir sjúklingar, eins og t.d. ýmsir geðsjúkir og fatlaðir, geta ekki haldið saman kvittunum vegna sjúkdóms síns, þeir hafa ekki tök á því og hafa aðstandendur þessara sjúklinga komið að máli við mig vegna þessa ástands. Ég er með dæmi þar sem aðstandandi einstaklings, sem er með geðrænan sjúkdóm og getur ekki safnað kvittunum sínum sjálfur, fékk útprentun á öllum kostnaði hans á heilsugæslustöð þar sem hann er viðskiptavinur en hann hafði þá greitt umfram hámarkið en Tryggingastofnun ríkisins neitaði að taka útskriftina gilda og vill ekki afhenda afsláttarkort nema gegn bleiku miðunum eða kvittununum frá lækni. Þó er þetta frumrit frá stjórnsýslu heilsugæslunnar sem aðstandandinn framvísaði. Þetta ástand kemur illa niður á þeim sem búa við veikindi eða fötlun sem gerir það að verkum að þeir geta ekki haft reiðu á kvittununum og því missir þetta fólk af þeim kjarabótum sem það á í rauninni rétt á í kerfinu.

Þegar lyf eru annars vegar og sjúkratryggingar koma til móts við sjúklinga með því að greiða niður mikinn lyfjakostnað, þá er tekið mark á og tekin gild útskrift úr apótekum. Þar þarf ekki að koma með allar kvittanirnar vegna lyfjakaupa þegar sjúklingur er með mikinn lyfjakostnað. Því er það ótrúlegt ósamræmi og kemur niður á þessum hópi sjúklinga að útskrift frá lækni eða heilsugæslustöð er ekki tekin gild þegar afsláttarkortin eru annars vegar. En vegna þessa spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hversu margir þeirra sem hafa greitt umfram hámark fyrir læknisþjónustu hafa sótt um afsláttarkort síðustu þrjú árin? Hversu margir hafa ekki gert það?

2. Er vitað hvort ákveðnir hópar sjúklinga sækja síður um afsláttarkort en aðrir eftir að réttur til þess hefur skapast? Hefur það t.d. verið skoðað eða kannað?

3. Eru áform um að auðvelda þeim að nýta sér þennan rétt sem ekki geta vegna sjúkdóms og fötlunar, borið sig eftir honum, þ.e. að einfalda kerfið þannig að fólki sé ekki gert þetta svona erfitt?