131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Afsláttarkort.

108. mál
[13:02]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Okkur í heilbrigðisráðuneytinu og mér sem heilbrigðisráðherra er vissulega mjög annt um að fólk þekki rétt sinn og nýti hann. Það er alveg ljóst. En ég tel að hlutverk heilbrigðisstarfsmanna í þessu efni sé það mikilvægasta, að fólk sé minnt á rétt sinn um leið og það leitar eftir þjónustu og fái leiðbeiningar í því efni. Mér er kunnugt um að fólk sem vinnur í heilbrigðisþjónustunni, t.d. í heilsugæslunni, gerir það. Það spyr hvort menn séu með skírteini. Við erum ætíð tilbúin að ræða við Tryggingastofnun um framkvæmd þessara mála og ef einhverjir hnökrar eru í málinu höfum við sérstaka samráðsnefnd og höfum formfest það samstarf. Það er sjálfsagt og eðlilegt að það sé tekið upp við stofnunina ef einhverjir hnökrar eru á þeim samskiptum.

Það sem ég nefndi í svari mínu voru vandkvæðin varðandi persónuverndina, vandkvæðin varðandi samkeyrslur upplýsinga. Ljóst er að við höfum ekki svör við öllum spurningum og þar liggur vandamálið. Hins vegar held ég að við getum haft upplýsingarnar í bærilega góðu lagi með almennum fyrirmælum og góðum samskiptum og við í heilbrigðisráðuneytinu erum tilbúin að stuðla að því.

Að öðru leyti þakka ég þingmanninum fyrir að taka málið upp. Það er vissulega þarft að vekja athygli á þessu í umræðum á Alþingi og ég þakka fyrir það.