131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Undirbúningur í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.

113. mál
[13:06]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir beinir til mín fyrirspurn um hvort starfsfólk í heilbrigðiskerfinu hafi verið undirbúið sérstaklega undir móttöku og þjónustu við konur sem hafa verið umskornar, og ef svo er, hvaða starfsfólk og í hverju undirbúningurinn hefur falist.

Af hálfu heilbrigðisþjónustunnar hafa þessi mál fyrst og fremst verið á könnu kvennadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þar hefur allt frá árinu 2003 verið rætt um hvernig taka skuli á vanda þeirra kvenna sem koma kynnu á deildina vegna þungunar og fæðingar og væru umskornar. Tveir eða þrír úr hópi kvennasérfræðilækna deildarinnar hafa það verkefni að kynna sér sérstaklega meðhöndlun umskorinna kvenna bæði í og eftir fæðingu. Þeir læknar hafa nú þegar hafið undirbúning að þessu hlutverki sínu og mundu verða til kvaddir ef slík mál bæru upp á deildinni.

Ljósmæður sem hafa reynslu af þessu starfi og starfa erlendis að þessum málum yrðu einnig til kvaddar þegar þörf yrði á vegna umönnunar í fæðingu. Á kvennadeild er tekin afstaða til umfangs, viðgerða á sköpum og spöng þessara kvenna eftir fæðingu. Kvennadeildin vinnur í samræmi við viðteknar venjur í helstu nágrannalöndum okkar svo sem á Norðurlöndum og í Bretlandi svo og samkvæmt íslenskum lagafyrirmælum. Einnig koma félagsráðgjafar að málinu eftir því sem þörf er á.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þm.