131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Undirbúningur í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.

113. mál
[13:08]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að taka málið upp. Hún hefur verið ötul við að halda málinu á lofti. Ég held að full ástæða sé til að horfa á þetta mál og það gleður mig hvernig hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurninni. Það var náttúrlega ekki við öðru að búast en að Landspítali – háskólasjúkrahús væri með undirbúning í gangi til að takast á við þennan vanda því ljóst er að það er aðeins tímaspursmál hvenær slíkt kemur hér upp. Það er fjöldi útlendinga hér á landi og þetta er mjög djúpt í þjóðarsál þeirra þjóða sem stunda þessi vinnubrögð, en náttúrlega alveg ljóst að þetta er óverjandi meðhöndlun á konum. Þetta er ofbeldi gagnvart konum og alvarlegt form af misnotkun á börnum. Það gleður mig því að heyra frá hæstv. ráðherra að undirbúningur er hafinn í heilbrigðiskerfinu okkar til að takast á við svona tilvik.