131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Grunnafjörður.

218. mál
[13:22]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér heyrist á svari hæstv. iðnaðarráðherra að lítil viska sé á bak við þann boðskap sem hér var fluttur. Þetta eilífðarhjal um vöktun á útblæstri er að verða fremur leiðinlegt hér í þessu samhengi. Það er alveg sama hversu mikið stjórnvöld vakta þennan útblástur. Hvenær ætlum við að fara að ræða þetta mál ofan í kjölinn og hætta þessari endalausu losun eiturefna út í náttúruna sem nú þegar er farin að valda umhverfinu spjöllum?

Hæstv. forseti. Skuldbindingum Íslands á vettvangi Ramsar-samningsins er ógnað af rafskautaverksmiðju á Katanesi. Skuldbindingum Íslands á vettvangi Bernarsamningsins er ógnað. Skuldbindingum Íslands á vettvangi Kyoto-bókunarinnar og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er ógnað. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að fara að snúa sér að einhverju öðru en að baka rafskaut á Katanesi. Hún ætti að hætta að baka íslenskum friðlöndum slík vandræði sem hér eru í uppsiglingu. Ég tel að það sé kominn tími til að íslensk (Forseti hringir.) friðlönd fái að vera í friði fyrir ríkisstjórn Íslands.