131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Grunnafjörður.

218. mál
[13:23]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vandinn við þetta mál sem við ræðum hér, Grunnafjörð og stöðu hans gagnvart Ramsar-samþykktinni, er sá að menn hafa aldrei klárað að koma Grunnafirði í lag. Það var látið nægja 1996 að lýsa hann Ramsar-svæði. En síðan þegar búið var að segja A þá taldi íslenska ríkisstjórnin, umhverfisráðherra og aðrir ráðherrar með honum hæstvirtir, að það væri nóg og sögðu aldrei B, sem var það að búa til verndaráætlun fyrir þetta svæði sem þarf að gera og sem á að gera samkvæmt þessari samþykkt. Í raun eru þessi svæði ekki orðin Ramsar-svæði og ekki hægt að monta sig af þeim fyrr en sú verndaráætlun hefur verið gerð.

Það já sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði áðan um að þessi rafskautaverksmiðja samræmdist skuldbindingum Íslands samkvæmt þessari samþykkt er því náttúrlega já í ljósi þess að engin verndaráætlun er til. Þar með hefur hvorki hæstv. iðnaðarráðherra né umhverfisráðherra neitt vit á því og ekki neitt um það að segja (Forseti hringir.) hvað samræmist Ramsar-samþykktinni í þessu máli.