131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Grunnafjörður.

218. mál
[13:27]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Alltaf spretta upp sömu hv. þingmennirnir þegar er farið að tala um verksmiðjur í þessum virðulega þingsal af því að þeir eru á móti öllum verksmiðjum. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Það er óþarfi að tala svona.) (Gripið fram í.) Óskaplega eiga hv. þingmenn bágt.

(Forseti (ÞBack): Má ég biðja aðeins um hljóð í salinn.)

En það var eitt alveg hárrétt sem hér var sagt og það var að iðnaðarráðherra hefði ekkert sérstaklega mikið vit á þessum málum, þ.e. hvað varðar mengun. Það vill nú svo til varðandi ráðherra sem ekki fara með slík mál — og iðnaðarráðherra gerir það nú ekki samkvæmt stjórnsýslu Íslands — að þegar mál sem þessi koma upp þá fara þau bara í ákveðinn farveg. Ég veit ekki betur en þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað hafi haft bara heilmikið álit á mati á umhverfisáhrifum og Skipulagsstofnun í því sambandi og annað slíkt. Það vill svo til að þessi verksmiðja hefur þessi leyfi. Það á nú ekkert að tala um leyfi í þessu sambandi. En hún hefur farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum.

Hv. þingmaður sem hér hóf þessa umræðu hefur nú, held ég, heilmikið álit á Evrópusambandinu og eins og kom fram í máli mínu áðan er matið á umhverfisáhrifum sem unnið er vegna verksmiðjunnar, þ.e. þá eru viðmið hér svo miklu lægri en hjá Evrópusambandinu að þau eru tíu sinnum hærri hjá ESB (Gripið fram í.) í sambandi við verksmiðjuna. Því er augljóst að verið er að gæta varúðar (Gripið fram í: ... í Grunnafjörð.) í þessu sambandi. (Gripið fram í.)

Svo var talað hér um geðklofa og fleira sem ég ætla ekki að bregðast við. En það var líka talað um sól í Hvalfirði. Ég vil minna á að þegar Norðurál hóf starfsemi sína í Hvalfirði voru iðnaðarráðherra afhent mótmæli undir lögregluvernd. Slíkt var ástandið. (Gripið fram í.)

Hver er á móti þeirri verksmiðju í dag? Það sem þurfti til á þeim tíma var kjarkur stjórnvalda til þess að byggja (Forseti hringir.) þessa verksmiðju og svo verður áfram. (Gripið fram í.)