131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þjóðmálakönnun í Eyjafirði.

327. mál
[13:30]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Nýlega var gerð könnun á vegum Rannsóknastofnunar Háskóla Akureyrar um viðhorf Eyfirðinga til þróunar byggðarlags síns eftir aldri, búsetu og kyni. Einnig var spurt um hvort líkur væru á að íbúarnir mundu flytja á næstu 2–3 árum. Ýmsar niðurstöður þjóðmálakönnunar voru jákvæðar, svo sem eins og viðhorf tæplega 100 Grímseyinga sem byggja þá eyju að þeir væru ekki á förum. En því miður eru niðurstöður rannsóknarinnar mjög neikvæðar fyrir sjávarbyggðirnar á utanverðum Eyjafirði, þ.e. Siglufirði, Dalvík og Ólafsfirði. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna svart á hvítu að fjórði hver íbúi þessara byggða telur það frekar eða mjög líklegt að þeir muni flytja í burtu á næstu 2–3 árum.

Annað er sláandi að í Ólafsfirði hafa einungis 40% íbúa trú á jákvæðri þróun eigin byggðarlags á næstu árum. Þetta viðhorf fólks í sjávarbyggðunum við utanverðan Eyjafjörð ætti að vera umhugsunarefni fyrir hæstv. byggðamálaráðherra og í framhaldinu er rétt að spyrja: Hvernig hyggst ráðherra byggðamála bregðast við niðurstöðum nýrrar þjóðmálakönnunar sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerði í Eyjafirði?

Það sem sjávarbyggðunum er nauðsyn til að efla bjartsýna trú er að opna fyrir nýliðun í sjávarútvegi, það er augljóst. Það má einnig fullyrða að sjávarútveginum sjálfum er það nauðsyn að fá nýliða inn í greinina. Eins og staðan er nú ríkir stöðnun í sjávarbyggðunum, aðsókn og menntun í sjávarútvegi hefur dregist saman, sjávarútvegsfyrirtækin eru skuldsett upp fyrir haus og löngu orðið tímabært að breyta sjávarútvegsstefnu stjórnvalda.

Því miður er eins og hæstv. ráðherra sé löngu búinn að átta sig á samhengi byggðamála og sjávarútvegsmála. Annað er ekki að sjá á heimasíðu hæstv. ráðherra. Þar kemur fram að hún telur ákveðna þversögn fólgna í því að hægt sé að draga björg í bú frá hverju sjávarþorpi á landinu. Hæstv. ráðherra líkir því við að verið sé að föndra við byggðirnar. Þessu erum við í Frjálslynda flokknum alfarið á móti og teljum þetta viðhorf vera byggðamálaráðherra og ríkisstjórninni algerlega til skammar. Það er orðið löngu tímabært að breyta sjávarútvegsstefnunni sem hefur í rauninni engu skilað. Hún skilar minni afla á land en fyrir daga kvótakerfisins og er orðið löngu tímabært að hæstv. byggðamálaráðherra snúi af þeirri stefnu sem hún hefur viðurkennt á heimasíðu sinni að er byggðunum óhagstæð, enda ef farið er yfir byggðamál og síðan stöðu sjávarútvegsins er hægt að sjá samhengi hlutanna.