131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þjóðmálakönnun í Eyjafirði.

327. mál
[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var ekki ýkjamikið upp úr svörum hæstv. ráðherra að hafa. Að lesa falleg orð upp úr skýrslu með áætlunum svarar í litlu þeim miklu erfiðleikum sem byggðakjarnarnir t.d. út með Eyjafirði eiga við að glíma, dæmigerð sjávarpláss, þéttbýlissveitarfélög af millistærð. Erfiðleikarnir birtast m.a. í gríðarlegum vanda sveitarfélaganna sjálfra sem rekstrareininga. Hvað er verið að gera til að koma til móts við þann vanda? Ekki neitt. Hæstv. fjármálaráðherra stendur þar á bremsunum af öllu afli þannig að það vælir í borðunum og ekkert gerist. Það er allt fast í viðræðum sveitarfélaganna og ríkisins og ekki síst það sem fólkið auðvitað í byggðarlögunum finnur að sveitarfélögin eru að verða þess meira og meira vanmegnug að veita hefðbundna þjónustu og sjá um sína hluti.

Óvissan og erfiðleikarnir í sjávarútveginum, sem eru líka að verða vegna gengisins og fleiri þátta, setja mark sitt á stöðuna í þessum byggðum. Ekki er mikilla breytinga að vænta frá hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum.