131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Byggingarmál Iðnskólans í Reykjavík.

237. mál
[13:51]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Iðnskólinn í Reykjavík varð 100 ára í haust og það er merkilegur áfangi á Íslandi og merkilegur skóli sem verður svo gamall. Hann er sennilega annar elsti skóli á Íslandi, þriðji elsti ef reiknað er með forsögu Skálholtsskóla, þ.e. að Skálholtsskóli hafi orðið að annars vegar Menntaskólanum í Reykjavík og hins vegar að Prestaskólanum sem síðan varð að Háskóla Íslands. Það má fara í slíka talnaleiki. En í raun er Iðnskólinn eldri en 100 ára því bæta má 35 árum við þessi 100 ef saga hans er rakin aftur til upphafs iðnfræðslu í Reykjavík sem er kvöldskólinn sem hófst 1869.

Iðnskólinn sjálfur er stofnaður af miklum stórhug á framkvæmda- og miklum vonartímum og það gerðu íslenskir iðnaðarmenn sjálfir sem mynduðu í Reykjavík og út um landið kjarnann í sjálfstæðisbaráttunni á þeim tíma. Þeir voru þar að auki einir helstu skapendur borgarinnar sem við lifum nú í, í Reykjavík. Skólinn hefur verið á fjórum stöðum ef svo er hægt að segja. Frægasti fyrri staður skólans er auðvitað Iðnaðarmannahúsið við Tjörnina sem var reist ótrúlega hratt á sínum tíma. Núverandi Iðnskólahús á Skólavörðuholti er reist um miðja síðustu öld og síðan viðbyggingin til vesturs 1963. Síðan hefur í raun ekkert gerst þar.

Í skólanum eru um 1.600 nemendur að degi og síðan bætast við 200–300 kvöldnemar. Þetta eru ekki allt Reykvíkingar. Af þeim eru um 500 utanbæjar, rúmlega 300 af landsbyggðinni þannig að þetta mál varðar fleiri en Reykvíkinga.

Þarna hafa orðið miklar breytingar og framþróun á síðustu árum. Við getum, held ég, bæði Reykvíkingar og aðrir, verið stolt af þessum skóla. Sjónir beinast nú að honum bæði vegna þess sem þar er að gerast og líka vegna þess að ef af sameiningu Tækniháskólans og Háskóla Reykjavíkur verður, sem er umdeilt mál, þá gæti Iðnskólinn fengið aukið hlutverk, sérstaklega miðað við þær ætlanir og vonir forustumanna skólans og skólastjóra hans Baldurs Gíslasonar að skólinn geti teygt sig í framtíðinni upp á háskólastigið.

Húsnæðisskortur hefur háð þessum skóla lengi. Á það var minnt á 100 ára afmælinu að fyrir 25 árum sagði þáverandi rektor Þór Sandholt í 75 ára afmælisblaðinu að ekkert gengi í húsnæðismálunum og að þar væri mikil tregða. Það var líka sagt í 90 ára afmælisblaðinu og enn er svo á 100 ára afmælinu. Að vísu hefur nefnd verið að störfum frá því í ársbyrjun. En hún hefur ekki náð að komast að Iðnskólanum heldur hefur hún fjallað um vandamál annarra skóla. Því hlýtur maður að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvaða hugmyndir hún hefur um þetta mál og hvað starfsmenn hennar séu að bauka um húsnæðismál Iðnskólans í Reykjavík.