131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Byggingarmál Iðnskólans í Reykjavík.

237. mál
[13:54]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda um mikilvægt hlutverk Iðnskólans í gegnum árin. Í 100 ár hefur þessi skóli átt ríkan þátt í þeirri miklu framþróun sem við höfum staðið frammi fyrir þegar kemur að menntun landsmanna.

Ég undirstrika að í september á síðasta ári undirrituðu þáverandi menntamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík samkomulag um samstarf ríkis og Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum framhaldsskólanna í Reykjavík. Þar er miðað við að framlög til tiltekinna forgangsverkefna skuli vera 250 millj. kr. næstu fimm árin. Helstu forgangsverkefnin eru talin upp í því samkomulagi. Þau eru stækkun fimm framhaldsskóla í borginni, þ.e. Fjölbrautaskólans við Ármúla, MH eða Menntaskólans við Hamrahlíð, Iðnskólans í Reykjavík, Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Menntaskólans við Sund.

Undirbúningur er þegar hafinn að þessum verkefnum öllum en framkvæmd forgangsraðar er ekki endanlega ákveðin enda erum við í ágætri samvinnu — ég vil meina að þetta verkefni sé eitt af þeim sem ég tel að séu að mörgu leyti til fyrirmyndar þegar kemur að samstarfi ríkis og sveitarfélaga, í þessu tilviki Reykjavíkurborgar.

Hæstv. forseti. Þó er ljóst að einhver bið verður á framkvæmdum við Iðnskólann í Reykjavík og þá sérstaklega og einkum vegna þess að nokkur óvissa ríkir um einmitt framtíðarafnot skólans af húsi fyrrum Vörðuskóla. Mikil þrengsli vegna fjölgunar nemenda í Austurbæjarskóla hafa leitt til þess að Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því við ríkið að fá húsið til sinna nota, en það er í sameign ríkisins og Reykjavíkurborgar. Viðræður standa nú yfir milli ríkis og borgar um ráðstöfun Vörðuskólahússins og nokkurra annarra umfangsmikilla fasteigna í eigu þessara aðila og mun stærð og gerð viðbyggingar Iðnskólans m.a. ráðast af niðurstöðum þeirra viðræðna en auðvitað og að sjálfsögðu með framtíðarhagsmuni Iðnskólans í Reykjavík í huga.

Verði niðurstaðan sú að Iðnskólinn haldi Vörðuskóla til frambúðar þá er líklegt að bygging viðbótarhæðar ofan á vesturálmu Iðnskólans verði látin nægja sem viðbót að sinni en frekari viðbyggingu frestað, þ.e. ef Iðnskólinn fær Vörðuskólann algerlega til umráða. Semjist hins vegar um að Reykjavíkurborg taki við Vörðuskólahúsinu verður að sjálfsögðu að bregðast við því með mun viðameiri framkvæmdum í þágu Iðnskólans. Það er hins vegar markmið samkomulagsins á milli borgarinnar og ráðuneytisins og vilji ráðuneytisins að unnið verði áfram að úrlausn á þessum málum og þau helst til lykta leidd sem allra fyrst.