131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Byggingarmál Iðnskólans í Reykjavík.

237. mál
[13:57]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ef og þá. Óljós voru svörin. Það eru veruleg vonbrigði að ekki sé gengið rösklega fram í þessu máli. Það virðist sem ríkið dragi lappirnar í húsnæðismálum Iðnskólans og hægt er að færa rök fyrir því að húsnæðisekla skólans hamli því að hluta að hægt sé að efla verulega iðn- og starfsnám hér í borg. Það er mjög slæmt ef aðstöðuleysi veldur því og er skólanum fjötur um fót af því að ekki skortir á yfirlýsingarnar frá hæstv. ráðherra og flestum öðrum stjórnmálamönnum um mikilvægi iðnmenntunar.

Við hæstv. ráðherra vorum á þingi Iðnnemasambandsins fyrir nokkrum vikum og þar var ekki annað á ráðherranum að heyra en hún tæki heils hugar undir tillögur Samfylkingarinnar um mikilvægi þess að efla iðn- og starfsnám. Því eru það ákveðin vonbrigði í kjölfar þess málflutnings sem hæstv. ráðherra hefur líka viðhaft annars staðar, þ.e. að mikilvægt sé að efla iðn- og starfsnám enn frekar og gera það að verulega góðum valkosti um alla framtíð fyrir unga Íslendinga, að ekki sé gengið fram svolítið hressilegar í þessum málum. Ef iðnskólarnir, sérstaklega Iðnskólinn í Reykjavík, þessi móðurskóli iðnmenntunarinnar, búa ekki við almennilega og nútímalega aðstöðu þá er ekkert um það að ræða að náminu fleyti fram eins og við berum væntingar til.