131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Byggingarmál Iðnskólans í Reykjavík.

237. mál
[14:00]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og fremst nefna hér þá samninga sem hæstv. ráðherra vísaði til milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um Vörðuskólann og það sem tengist gömlu Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg sem hefur líka verið í sameign ríkis og borgar. Um langt árabil hefur verið reynt að slíta þessu sameiginlega eignarhaldi og ég held að Reykjavíkurborgarmegin hafi Heilsuverndarstöðin til að mynda verið á dagskrá a.m.k. í þau sex ár sem liðin eru síðan ég settist í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er ákaflega brýnt orðið, m.a. vegna þess vanda sem skapast hefur í húsnæðismálum Austurbæjarskóla, að slíta þessari sameign á Vörðuskólanum og Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Ég vil þess vegna eindregið hvetja hæstv. ráðherra til að leggja þar hönd á plóg svo að aðilum takist að ljúka þessum langdregnu viðræðum sem lítið hefur í sjálfu sér miðað á öllum þessum tíma. Ég held að það séu gagnkvæmir hagsmunir borgarinnar og ríkisins að fá niðurstöðu í þetta, slíta þessari sameign og reyna að mæta þörfum þeirra mikilvægu fræðslustofnana sem eru á Skólavörðuholtinu.