131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Frumkvöðlafræðsla.

334. mál
[14:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla eru sett fram meginmarkmið skólastarfsins. Í námskránum er lögð áhersla á að þjálfa nemendur í sjálfstæðum og öguðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun. Nemendur skulu hvattir til að virkja hæfileika sína í skapandi starfi. Þannig má með vissum hætti segja að námið eigi að leggja grunn að hæfni hvers og eins til að bregðast við nýjum aðstæðum og verkefnum síðar á lífsleiðinni.

Í síbreytilegu umhverfi samtímans reynir einmitt á þá hæfni. Menn eru stöðugt að takast á við breytingar og tileinka sér nýjungar og framfarir á öllum sviðum. Skólarnir sem heild og einstakir kennarar vinna að útfærslu og framkvæmd markmiðanna með hliðsjón af þörfum og aðstæðum nemenda. Unnið er að hinum almennu markmiðum í skólastarfinu í heild, þau eru oft og tíðum ekki bundin sérstakri námsgrein eða námsgreinum. Sjálfstæð hugsun og öguð vinnubrögð eru viðfangsefni alls skólastarfsins, ekki einnar greinar umfram aðrar. Námið í skólum okkar er á vissan hátt að búa alla undir að verða frumkvöðlar með því að rækta framangreinda hæfni.

Í Aðalnámskrá grunnskóla, upplýsinga- og tæknimennt, frá árinu 1999 er lögð rík áhersla á nýsköpun og tækniþekkingu. Þar eru sett fram lokaáfangamarkmið fyrir nýsköpun og hagnýtingu þekkingar í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla. Greinin fær ekki afmarkaðan tíma í viðmiðunarstundaskrá en er lýst í námskránni sem þverfaglegri grein er samþættist námsefni fleiri námsgreina.

Frumkvöðlafræðsla er viðfangsefni nokkurra mismunandi áfanga sem er að finna í aðalnámskrá framhaldsskóla og sérstakir áfangar í frumkvöðlafræðum hafa staðið nemendum til boða í nokkrum framhaldsskólum. Frumkvöðlafræðsla er hins vegar ekki sérstök kennslugrein fyrir alla nemendur, hvorki í grunn- né framhaldsskólum. Ekki eru uppi áform af hálfu ráðuneytisins að gera hana að sérstakri námskrárbundinni kennslugrein í grunn- og framhaldsskólum á þessu stigi.

Málið er hins vegar áhugavert og verðskuldar fulla athygli og er til stöðugrar umræðu sem ráðuneytið tekur að sjálfsögðu þátt í. Ráðuneytið hefur til að mynda lagt sitt af mörkum við að hvetja þá skóla og kennara sem vilja vinna sérstaklega að afmörkuðum verkefnum sem fella má beint undir frumkvöðlafræðslu. Sjóðir til styrktar þróunarstarfi í grunn- og framhaldsskólum hafa stutt verkefni á sviði frumkvöðlafræðslu. Unnið er að því með stuðningi ráðuneytisins að skipuleggja námsbraut í frumkvöðlafræðslu við Framhaldsskólann á Höfn í Hornafirði. Þar er jafnframt unnið að samningu námsefnis um frumkvöðlafræðslu sem mun nýtast öðrum skólum.

Þá má nefna að ráðuneytið styrkir þátttöku framhaldsskólanna í keppninni „Ungir vísindamenn“ sem einmitt byggir á nýsköpun og frumleika. Nýlega náðu fulltrúar Íslands í því verkefni þeim eftirtektarverða árangri að vinna 1. verðlaun í alþjóðlegri nýsköpunarkeppni í Kína.

Flestir þekkja nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem ráðuneytið styrkir með fjárframlögum. Keppnin hefur náð fágætum vinsældum meðal nemenda og hafa hugmyndir sem henni hafa borist verið nærri 3 þús. á ári á síðustu tveimur árum. Nýsköpunarkeppnin er lifandi dæmi um vel heppnað framtak til að efla frumkvöðlahugsun meðal grunnskólanema.

Í starfi grunn- og framhaldsskóla er því ýmislegt áhugavert að finna á sviði nýsköpunar og frumkvöðlafræðslu sem vert er að huga vel að. Ég veit einnig um ýmis önnur frumkvöðlatengd verkefni sem eru í gangi í grunnskólum, til að mynda hefur Junior Achievement verkefnið, sem er alþjóðlegt frumkvöðlaverkefni, verið sett upp í skólum í Hafnarfirði og í Grafarvogi.

Hugsanlega verður niðurstaðan sú að ástæða þyki til að gera frumkvöðlafræðslu að sérstakri námskrárbundinni grein fyrir alla nemendur. Slík ákvörðun mun m.a. kalla á að kennarar verði undirbúnir til að takast á við kennslu frumkvöðlafræða, bæði í grunnmenntun kennara og í þeirri endurmenntun sem starfandi kennurum stendur til boða.

Verði ákveðið að gera frumkvöðlafræðslu að almennri kennslugrein auðveldar það verkið að námskrár grunn- og framhaldsskóla eru í stöðugri endurskoðun með það að leiðarljósi að skólarnir megi sem best undirbúa ungmennin okkar undir líf og störf í samfélagi framtíðarinnar.