131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Frumkvöðlafræðsla.

334. mál
[14:12]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini Sigurðssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er alveg hárrétt hjá honum að mjög merkilegt starf fer fram í Framhaldsskólanum á Höfn í Hornafirði sem er uppbyggingarnám í frumkvöðlafræðslu sem á bæði að fara fram innan og utan skólakerfisins. Frumkvöðlanám er oftast blanda af hagnýtri þjálfun og bóklegu námi, og nemendur fást þar við ýmis verkefni sem þjálfa þá í að koma auga á tækifæri í umhverfi sínu og finna leiðir til að færa þau sér í nyt. Samhliða því nota nemendur þekkingu sem aflað er með bóklegu námi til að styrkja stöðu sína í daglegu lífi, t.d. fá þau betri innsýn í eigin fjármál og öðlast skilning á því hvað rekstur lítilla fyrirtækja gengur út á og hvað þarf til að ná betri árangri.

Frumkvöðlafræðslan er sjálfseignarstofnun og mig langar að geta þess núna að í meðförum fjárlaganefndar var ákveðið að styðja þetta verk um 2 millj. króna en þessi kennsla hefur farið fram í tveimur framhaldsskólum.