131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Frumkvöðlafræðsla.

334. mál
[14:13]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessa fyrirspurn inn á þingið. Ég tel að það frumkvæði sem hefur verið sýnt í Framhaldsskólanum á Höfn í Hornafirði og starfsemi Fumkvöðlafræðslunnar sé starf sem menntamálaráðuneytið og aðrir eigi að fylgjast mjög vel með og sjá hverju það skilar inn í það samfélag sem er til staðar.

Það skiptir auðvitað miklu máli að frumkvöðlamenntun fari inn í menntun kennara. Þó að það eigi að taka tillit til þessara þátta í námskrá, bæði grunn- og framhaldsskóla, er alveg ljóst að möguleikar kennara í dag eru ekki miklir. Bekkir eru fjölmennir, það vantar oft fjármagn til að víkka starfsemi skólanna til að taka þetta inn. En eitt er víst, menntun af þessu tagi hjálpar til við að efla fjölbreytt atvinnulíf og eykur þor ungmenna til að fara í nýjar atvinnugreinar.