131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla.

233. mál
[14:22]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Spurt er hvenær vænta megi framkvæmdaáætlunar um aðgengi fyrir alla og kynningar á henni.

Því er fyrst til að svara að starfshópur var skipaður vegna þessa verkefnis og hóf hann störf í september 2003. Í honum eru fulltrúar sjö ráðuneyta auk fulltrúa frá hagsmunasamtökum fatlaðra þar sem Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp eiga fulltrúa.

Hópurinn hefur haldið 23 fundi auk þess sem undirhópar hans hafa haldið tugi funda á síðustu mánuðum. Við upphaf vinnu starfshópsins var ljóst að verkefnið yrði það umfangsmikið að það yrði ekki mögulegt að klára það innan þess tímaramma sem áætlaður var. Það var mat starfshópsins, hæstv. forseti, að vinna þyrfti nákvæma úttekt á stöðu aðgengismála á Íslandi og til þess þyrfti lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdaáætlunin beri með sér flesta þá verkþætti sem æskilegt er að vinna að til að tryggja aðgengi fyrir alla.

Starfshópurinn skipulagði vinnulag við verkefnið með þeim hætti að verkefninu var skipt upp í sex verkáfanga. Í fyrsta áfanganum lagði hópurinn mat á stöðu aðgengismála á Íslandi í ljósi hverrar og einnar viðmiðunarreglu Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra, en þær eru alls 22. Markmiðið var að fá yfirsýn yfir helstu verkþætti og greina þá í ljósi þeirra viðmiða sem grunnreglur Sameinuðu þjóðanna setja. Þessum fyrsta áfanga var lokið á fyrri hluta þessa árs og liggur fyrir frumgreining á þörfum fyrir umbætur í ljósi grunnreglnanna.

Í öðrum verkáfanga var markmiðið að afla enn frekari upplýsinga um umfang og eðli þeirra verkþátta sem tekin hafði verið ákvörðun um að skoða frekar. Þetta var gert með aðstoð ýmissa sérfræðinga sem best þekkja til á hverju sviði. Auk sérfræðinga hafa notendur, aðstandendur og aðrir þeir sem ríkra hagsmuna eiga að gæta komið að úttektinni. Ætla má að í þessum öðrum verkáfanga hafi hátt í 200 manns lagt sitt af mörkum við vinnuna. Gert er ráð fyrir að honum ljúki vorið 2005 en þess má geta að verið er að vinna við skoðun vel á annað hundrað verkþátta.

Í þriðja áfanga er markmiðið að skilgreina og flokka öll þau álit sem borist hafa starfshópnum, meta mikilvægi verkþáttanna og skoða valkosti.

Í fjórða áfanga að forgangsraða þeim verkþáttum sem talið er mikilvægast að vinna að á næstu árum.

Í fimmta áfanga að vinna að ítarlegri áætlun um framkvæmd og útfærslu.

Í sjötta að vinna greinargóða kostnaðaráætlun fyrir alla verkþætti framkvæmdaáætlunarinnar.

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda gerði þingsályktunin ráð fyrir að framkvæmdaáætlunin yrði lögð fram fyrir 1. okt. 2003, en ég tek undir með fyrirspyrjanda að það er ljóst af umfangi verkefnisins að það þarf mun meiri tíma til þess að ljúka því. Áætlanir okkar gera ráð fyrir að það takist ekki fyrr en um árslok 2005.

Í öðru lagi er spurt hvort framkvæmdaáætlunin muni ná til fleiri þátta en ferlimála.

Viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra taka til 22 grunnviðmiðana eins og áður kom fram. Þau viðmið flokkast í þrjá meginkafla, þ.e. forsendur jafnrar þátttöku þar sem fjallað er um mikilvægi vitundarvakningar, læknisþjónustu, endurhæfingu og stoðþjónustu.

Í II. kafla, sem ber yfirskriftina „Áherslur um jafna þátttöku“, er fjallað um aðgengi, menntun, atvinnu, tekjutryggingar almannatrygginga, fjölskyldulíf og mannlega reisn, menningu, tómstundir, íþróttir og trúariðkanir.

Í III. kafla er síðan fjallað um hvernig staðið skuli að framkvæmd við jafna þátttöku. Þar er kveðið á um miðlun upplýsinga og rannsóknarstarf, stefnumótun og áætlanir, löggjöf, þjálfun starfsfólks, eftirlit og mat áætlana fyrir fatlaða á landsvísu, tæknilega og efnahagslega samvinnu og alþjóðlega samvinnu.

Framkvæmdaáætlunin mun því bera með sér áætlanir um alla þá þætti sem fyrr hafa verið nefndir. Framkvæmdaáætlunin mun ná til mun fleiri þátta en ferlimála eins og þau hafa oft verið skilgreind meðal manna, þ.e. ekki einungis aðgengi að byggingum.

Í þriðja lagi er spurt hvort áhersla verði lögð á hönnun fyrir alla.

Samkvæmt skilningi starfshópsins tekur hugtakið „aðgengi fyrir alla“ á öllum þeim þáttum er snerta aðgengi að samfélaginu og hönnun þar með.

Í fjórða og síðasta lagi er spurt hvort unnið sé að tillögum um breytingar á lögum og reglugerðum sem lúta að aðgengismálum samhliða gerð framkvæmdaáætlunarinnar.

Því er til að svara, hæstv. forseti, að í lokaskýrslu starfshópsins verður gerð tillaga að breytingum á þeim þáttum sem lúta að aðgengi fyrir alla, þar með taldar breytingar á lögum og reglugerðum. Á þessu stigi vinnunnar liggur hins vegar ekki fyrir hverjar þær verða.