131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þungaskattur á orkugjöfum.

186. mál
[14:35]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að svara því síðasta sem fram kom hjá háttvirtum þingmanni. Það er engin óvissa um að staðið verði við þá tímasetningu sem lögin gera ráð fyrir og undirbúningur að því er á fullri ferð, m.a. við að undirbúa nauðsynlega reglugerð um málið.

Varðandi fyrirspurn þingmannsins þá vil ég þakka honum fyrir hana. Henni hefur verið svarað með þingskjali sem útbýtt var í dag. En ég vil þakka honum fyrir ábendinguna því að hún ýtti í það minnsta við okkur með að drífa í að leggja fram breytingarfrumvarp um að seinka þessu um þá sex mánuði sem hér er um að ræða, sem er millibilsástand sem ella hefði skapast. Það mál er því í sjálfu sér upplýst.

Um síðari spurninguna, um hvaða hvatning verði í skattkerfinu til að nýta aðra orkugjafa en bensín eða dísilolíu eftir 1. júlí næstkomandi þá er því til að svara að það verður engin breyting á þeim hvatningum sem eru í skattkerfinu til að nýta aðra orkugjafa en bensín og olíu, jafnvel þó að núverandi kerfi falli brott og við taki nýtt kerfi olíugjalds og kílómetragjalds. Áfram verður aðeins lagt gjald á bensín og dísilolíu en ekki á aðra orkugjafa. Það leiðir af sjálfu sér að þeir sem aðra orkugjafa nota munu ekki borga olíugjald og þar af leiðandi verður það óbreytt frá núverandi skipulagi.

Hins vegar vildi ég jafnframt geta þess að í núverandi skattkerfi er viss hvatning til að fjárfesta í bifreiðum sem knúnar eru öðrum orkugjöfum en bensíni og dísilolíu. Á því er engin breyting fyrirhuguð, a.m.k. í bili. Það á við um vörugjöld á ökutæki sem t.d. eru knúin rafhreyfli eða vetni. Sömuleiðis er takmörkuð undanþága fyrir bifreiðar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu. Þessi ákvæði er að finna í lögunum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum. Þau ákvæði munu standa óbreytt áfram og eru eldsneytisskattinum í raun óviðkomandi.