131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þungaskattur á orkugjöfum.

186. mál
[14:41]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir ábendingar þeirra um þetta mál. Það er sjálfsagt að halda vöku sinni hvað það varðar, t.d. ef hingað koma í notkun bílar yfir 10 tonnum að þyngd sem knúnir eru óhefðbundnu eldsneyti. Þá væri auðvitað sjálfsagt að skoða það mál þegar þar að kemur.

Að öðru leyti held ég að fyrirspurninni sé svarað. Það verður engin eðlisbreyting á gjaldtökunni á næstunni. Ég tek undir það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og reyndar háttvirtur fyrirspyrjandi sögðu, að það er eðlilegt að greiða fyrir því að ökutæki sem knúin eru óhefðbundnum orkugjöfum fái notið sín, í það minnsta að þeim sé ekki refsað umfram aðra sem slík tæki taka í notkun.