131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fangelsi á Hólmsheiði.

323. mál
[14:42]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég ber ásamt háttvirtum þingmönnum Bryndísi Hlöðversdóttur, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Margréti Frímannsdóttur fram fyrirspurn um fyrirhugað fangelsi á Hólmsheiði til hæstv. dómsmálaráðherra.

Nú hefur um þó nokkurn tíma legið fyrir ákvörðun um að ráðast í nýtt fangelsi á Hólmsheiði við Nesjavallaveg. Hins vegar hefur ekki verið gert ráð fyrir neinu fjármagni í verkefnið eins og oft er þegar menn lofa einhverju upp í ermina á sér. Ég tel að nýtt fangelsi bjóði upp á margs konar möguleika til að bæta úr þeim annmörkum sem núverandi fangelsi og fangelsisstefna bjóða upp á.

Þegar rætt er um breytingar á fangelsismálum eða fangelsum hlýtur það að vera eitt af meginmarkmiðunum að einstaklingar sem fara í fangelsi komi ekki út verri einstaklingar en þeir voru þegar þeir fóru þar inn. Núverandi fangelsisstefna hefur því miður brugðist þessu markmiði. Samkvæmt rannsókn Helga Gunnlaugssonar, prófessors í félagsfræði, kemur í ljós að ítrekunartíðni þeirra sem lenda í fangelsi er há. Um 37% þeirra sem luku fangavist voru fangelsaðir á ný. Um 44% voru dæmdir á ný og um 73% þeirra sem hafa lokið fangelsisvist þurftu afskipti lögreglunnar á ný innan fimm ára frá fangavistinni.

Ítrekunartíðnin var hærri hjá yngri afbrotamönnum. Nánast engin meðferðarúrræði er að finna í íslenskum fangelsum og eru til dæmi um að geðsjúklingar séu vistaðir á Litla-Hrauni eða í einangrunarklefum þar. Bygging hins nýja fangelsis veitir því einstakt tækifæri til að bæta úr þessum atriðum. Til dæmis mætti gera ráð fyrir sérstakri deild fyrir unga fanga í hinu nýja fangelsi en í umræðum um nýja fangelsið hefur ekki verið gert ráð fyrir slíkum möguleika.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að í ljósi sérstöðu ungra fanga, á aldrinum 18–24 ára, sé rétt að í fyrirhuguðu fangelsi á Hólmsheiði verði sérstök deild fyrir þann aldurshóp. En slíkur aðskilnaður gæti dregið úr afbrotatíðni ungra fanga sem, eins og fyrr segir, er hærri en í öðrum aldurshópum. Slíkur aðskilnaður veitir einnig möguleika á sértækum úrræðum fyrir þann aldurshóp, t.d. vímuefna- og geðmeðferð.

Þess má einnig geta að ungir fangar á þessu aldursbili eru viðkvæmur hópur. Samneyti við síbrotamenn getur haft hvetjandi áhrif á unga fanga til frekari þátttöku í afbrotum og dregið úr möguleika á betrun fanga. Ég vil því beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hvenær hefst bygging fyrirhugaðs fangelsis á Hólmsheiði og hvenær má ætla að það verði tekið í notkun?

2. Hvaða kröfur mun ráðherra leggja áherslu á að verði uppfylltar í nýja fangelsinu?

3. Mun einhver stefnubreyting í fangelsismálum felast í starfrækslu þess?

4. Verður þar gert ráð fyrir meðferðarúrræðum fyrir fanga?

5. Verður gert ráð fyrir aðskilnaði ungra og eldri fanga?

6. Verður gert ráð fyrir gæsluvarðhaldsföngum?