131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fangelsi á Hólmsheiði.

323. mál
[14:45]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Eins og fram kemur hjá hv. fyrirspyrjanda hefur undirbúningur vegna nýs fangelsis staðið yfir í mörg ár, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um byggingu þess. Margir dómsmálaráðherrar hafa í áranna rás svarað fyrirspurnum á borð við þessa og margar tillögur að nýju fangelsi hafa verið samdar. Þegar ég kom í dómsmálaráðuneytið í maí 2003 var unnið að gerð tillögu um fangelsi á Hólmsheiði eins og það hefur verið nefnt. Ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þeirra hugmynda sem þar er að finna. Þótti mér skynsamlegt að gefa nýjum fangelsismálastjóra sem hóf störf 1. maí sl. tækifæri til að koma að lokagerð tillagna um fangelsið á Hólmsheiði og aðrar framkvæmdir á vettvangi Fangelsismálastofnunar.

Í haust skiluðu fangelsismálastjóri og samstarfsmenn hans tillögum sínum til mín og er nú unnið að því að meta þær í dómsmálaráðuneytinu. Þar er núverandi staða greind og lagt á ráðin um framtíðina. Á grunni þessa var m.a. unnið að endurskoðun á frumvarpi til fullnustu refsinga sem lagt hefur verið fram á þessu þingi, en að hugmyndum um fjölgun og stækkun fangelsa er sérstaklega vikið í athugasemdum með frumvarpinu.

Eins og rakið er í athugasemdunum sýna athuganir að nauðsynlegt sé að við Reykjavík verði reist nýtt fangelsi. Fyrirsjáanlegt er að taka þarf Hegningarhúsið á Skólavörðustíg úr rekstri sem fangelsi á næstu árum, auk þess sem Fangelsismálastofnun hefur upplýst í framangreindri skýrslu sinni að Kópavogsbær vinni nú að breytingum á skipulagi þess svæðis þar sem fangelsið í Kópavogi stendur. Gerir skipulagið ráð fyrir að ekki verði áfram fangelsi á þeim stað.

Þegar rætt er um framtíðaruppbyggingu fangelsanna þarf að huga að mörgum þáttum en mikilvægast er að móta heildarstefnu á þessu sviði. Nauðsynlegt er að stefnan sem mótuð er taki ekki einungis til nýbygginga heldur einnig til þeirra fangelsa sem fyrirsjáanlega verða starfrækt áfram. Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum um fækkun fangelsa og spám um fólksfjölgun er það mat Fangelsismálastofnunar að byggja þurfi um 60 nýja fangaklefa hér á landi á næstu árum. Það er hins vegar ekki nóg að fjölga fangaklefum og láta þar við sitja, heldur þarf að fara yfir og meta hvers konar vistunarúrræði eigi að standa til boða og í hvaða hlutfalli. T.d. hefur verið á það bent að stærra hlutfall fanga uppfylli skilyrði fyrir vistun í svonefndu opnu fangelsi en nú er í boði. Þá hefur einnig verið bent á nauðsyn þess að vista unga fanga sér, svo og að fjölga vistunarúrræðum fyrir kvenfanga.

Á grundvelli þessara upplýsinga þarf t.d. að skoða hvort unnt sé að fjölga fangaklefum á Kvíabryggju. Einnig þarf að huga að stækkun fangelsisins á Akureyri, bæði til að fjölga þar rýmum og ekki síður til að bæta vinnuaðstöðu fanga. Þá er einnig nauðsynlegt að kanna til hlítar hvernig best verði staðið að því að stækka fangelsið á Litla-Hrauni og huga þar að endurbótum og breytingum á skipulagi að því er húsnæðismálin varðar. Í þessu ljósi yrði síðan skoðað hvers konar fangelsi væri rétt að reisa á höfuðborgarsvæðinu. Þar yrði fyrst og fremst horft til móttöku- og greiningarfangelsis, svo og deildar þar sem höfuðáhersla yrði lögð á afeitrun og meðferð þeirra sem glíma við vímuefnavanda og/eða geðræn vandamál. Þann þátt þyrfti að vinna í góðri samvinnu við heilbrigðisyfirvöld sem bera ábyrgð á allri heilbrigðisþjónustu fyrir fanga.

Framtíðaruppbygging fangelsa í landinu er að sjálfsögðu nátengd markmiðum og stefnu á þessu sviði og þar leikur ný löggjöf um fullnustu refsinga að sjálfsögðu lykilhlutverk. Ég lít því til þessara mála í heild í ljósi þess hvernig Alþingi tekur frumvarpinu um fullnustu refsinga því þar er að finna nauðsynlegt umboð fyrir ráðuneytið og Fangelsismálastofnun til að taka á málum fanga. Nýtt fangelsi kemur aldrei í stað skynsamlegrar löggjafar á þessu sviði og húsið er aðeins tæki til að framkvæma þá stefnu sem fylgt er í umboði Alþingis.

Vænti ég góðs samstarfs við þingmenn um þann þátt málsins á þessum vetri við afgreiðslu frumvarpsins um fullnustu refsinga.