131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veiðiregla.

181. mál
[15:01]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar er svohljóðandi:

„Hver er árangurinn af notkun veiðireglu við uppbyggingu þorskstofnsins á Íslandsmiðum?“

Í mars árið 2001 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd um langtímanýtingu fiskstofna með þátttöku sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar. Nefndin hafði m.a. það verkefni að meta árangurinn sem náðst hafði í nýtingu þorskstofns á undanförnum árum. Nefndin skilaði lokaskýrslu sl. vor og byggir eftirfarandi á henni.

Við framreikning og prófanir vegna setningar aflareglu árið 1995 var gert ráð fyrir að þorskaflinn yrði um 170 þús. tonn allt fram til ársins 2003. Reiknað var með 12–15 ára uppbyggingartíma, þ.e. þar til hrygningarstofn var orðinn um 800 þús. tonn og afli um 330 þús. tonn. Sem kunnugt er jókst aflinn meira en sem þessu nam og þessi markmið hafa því ekki náðst nema að hluta.

En þegar reynslan af ákvörðun heildaraflamarks með aflareglunni er metin er engu að síður ljóst að fiskveiðiárið 1995–1996 til 1996–1997, þegar stofninn er metinn með viðunandi nákvæmni, þá skilaði stefnan fyllilega þeim árangri sem stefnt var að.

Hins vegar þegar stofnmatið fór af réttri leið, a.m.k. eins og fyrirliggjandi mat gefur til kynna, árin 1997–1998 og 1999–2000 voru teknar ákvarðanir á röngum forsendum sem leiddu til þess að heildaraflamark var allt of hátt nokkur ár í röð. Afli umfram aflamark dró einnig úr árangrinum og eins sú breyting sem gerð var með tilkomu sveiflujöfnunar árið 2000, þar sem ekki er gert ráð fyrir að breyting á aflamarki nemi meiru en 30 þús. tonnum plús eða mínus frá einu ári til þess næsta.

Meginniðurstaðan varð því að árangur af beitingu aflareglunnar hefur orðið umtalsverður en miðað við þróun þorskstofnsins og í ljósi þess hvernig hann var metinn á hverjum tíma hefði mátt gera enn betur með því að fylgja upprunalegri tillögu vinnuhóps um aflareglu frá 1994. Þar var miðað við að veiðihlutfall væri 22% af veiðistofni í stað 25%, eins og í raunverulegri útfærslu, og að beitt skyldi svokallaðri meðaltalsreglu, meðaltals stofnmats og aflamarks undangengins árs, til að jafna sveiflur í afla milli ára í stað meðaltals stofnmats yfirstandandi árs og áætlunar næsta árs, eins og nú er.

Reynslan af lækkun fiskveiðidauða fiskveiðiárin 1994–1995 og 1996–1997 sýnir einnig að hægt er að byggja upp þorskstofninn með takmörkun afla. Einnig er nú ljóst að stofnmat er óvissara en áður var talið og skekkja í sömu átt getur verið viðvarandi nokkur ár í röð. Þetta getur leitt til þess að fiskveiðidauði verði um árabil mun meiri en ætlað var þegar beitt er aflareglu. (Gripið fram í: … aðeins að ræða um þetta.) (Gripið fram í: Gera úttekt.)

Í ofangreindri nefndarskýrslu sýndi einfalt haglíkan að hagrænn ávinningur af beitingu aflareglunnar árið 1995–2000 hefði verið um 24 milljarðar króna ef miðað er við hvernig stofninn var nýttur á árunum 1985–1992. Þar af eru 17 milljarðar vegna meiri hagnaðar en ella og 7 milljarðar vegna þess að stofninn var stærri og verðmætari í lok tímabilsins en annars hefði verið. Athugun bendir til að ef beitt hefði verið lægra aflahlutfalli frá upphafi og jöfnun af því tagi sem lögð var til í skýrslu vinnuhóps frá 1994, hefði líklega náðst enn betri árangur. Munurinn er metinn á um 46 milljarða króna. Þar af eru um 9 milljarðar vegna meiri hagnaðar á árunum 1995–2000 og 37 milljarðar vegna stærri stofns í lok tímabilsins.

Þegar bornar eru saman niðurstöður útreikninga með og/eða án matsskekkju kemur fram, að núvirtur hagnaður áranna 1995–2000 er nokkuð svipaður þegar beitt er tiltekinni aflareglu. Ef þeirri reglu sem lögð var til í skýrslu vinnuhóps frá 1994 hefði verið beitt, hefði núvirtur hagnaður orðið um 8 milljörðum meiri en raun varð ef ekki hefði komið til nein matsskekkja. Ef tekið er tillit til matsskekkjunnar er áætlaður munur um 9 milljarðar. Ávinningurinn af stærri og verðmætari stofni yfirgnæfir þennan mun hins vegar algjörlega. Að teknu tilliti til matsskekkjunnar hefði aflareglan sem lögð var til í skýrslu vinnuhópsins leitt til þess að stofninn hefði verið þriðjungi stærri í lok ársins 2000. Í verðmætum talið er áætlað að munurinn sé 37 milljarðar.

Að jafnaði hefur verið tilhneiging til ofmats á stærð þorskstofnsins á undanförnum tveimur áratugum. Ekki hefur fundist fullnaðarskýring þar á. Ofmatið hefur leitt til þess að í stað þess að afli var að jafnaði 25% af veiðistofni, eins og stefnt var að með núverandi aflareglu, var hlutfallið 27,5%. Að auki hefur afli umfram leyfðan heildarafla farið vaxandi á síðustu árum og því hefur raunveruleg veiði orðið um 30% af veiðistofni eða 20% meiri en stefnt var að með aflareglunni og 36% meiri en fólst í upphaflegu aflareglunni frá 1994.

Við samanburð og ítarlegar prófanir á ýmsum aflareglum, m.a. núverandi reglu, kom í ljós að regla sem miðaði við afla sem nemur 22% af veiðistofni hefur góða eiginleika hvað varðar hagnað, stöðugleika og vöxt og viðkomu þorskstofnsins. Niðurstaða um 22% veiðihlutfall er óháð því hvort gert er ráð fyrir að umhverfisaðstæður hafi breyst varanlega til hins verra frá því sem áður var eða hvort gera má ráð fyrir að þær fari batnandi og nýliðun verði aftur eins og á árunum fyrir 1985. — Ég er alveg að verða búinn, herra forseti.

Ef nýliðunin verður eins og á undanförnum 15 árum þýðir þetta að meðalafli verður um 240–250 þús. tonn á ári. Uppbygging hrygningarstofns og/eða betri uppeldisskilyrði leiða til þess að nýliðun verði svipuð og á áratugnum fyrir 1985. Þá verði meðalafli um 350–360 þús. tonn ári með 22% aflareglu.

Herra forseti. Hv. þingmaður lagði fyrir mig fleiri spurningar í ræðu sinni …

(Forseti (GÁS): Nú er tíminn alveg búinn.)

… sem ég verð að fá að svara í seinni ræðu. En það hefði auðvitað verið miklu betra ef hv. þingmaður hefði komið öllum spurningunum á framfæri í fyrirspurninni þegar hún var lögð fram sem þingskjal.

(Forseti (GÁS): Nú ræður forseti litlu um það en ræður því hins vegar að hv. 5. þm. Norðvest. ætlar að gera athugasemd.)

(Gripið fram í: Og kom engum á óvart.)