131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fiskveiðistjórnarkerfi.

232. mál
[15:26]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er nokkuð hissa á orðum hans varðandi færeyska kerfið, að það hafi fengið of háa einkunn miðað við það íslenska. Ég hefði einmitt talið að það hefði átt að fá mun hærri einkunn en það íslenska. Í Færeyjum er verið að veiða svipað magn og á 6., 7. og 8. áratugnum. Færeyingar reyndu kvótakerfi en hurfu frá því vegna þess að það skilaði þeim engum árangri.

Á Íslandi höfum við stjórnað með kvótum í tvo áratugi og það hefur ekki skilað þeim árangri sem við ætluðumst til. Við ætluðumst til þess að við færum í um 500 þús. tonna jafnstöðuafla. En árangurinn er allt annar. Við erum með tæplega helmingi minni afla en við lögðum upp með í upphafi og það ætti að vera áhyggjuefni.

Hvað varðar þá gagnrýni að einhver nefnd ákveði sóknardagana held ég að það sé alveg ástæðulaus ótti hjá hæstv. ráðherra, vegna 5% sóknarþunga á hverju ári.

En varðandi það að Færeyingar veiddu umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins hefur það ítrekað komið fram og sérstaklega í gögnum frá Færeyjum, vegna þess að gögn frá Færeyjum eru áreiðanlegri en víðast annars staðar, að þeir fengu ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu um að hætta veiðum t.d. á ýsu árið 2001. Þeir veiða samt sem áður 17 þús. tonn, en hvað sem því líður vex ýsustofninn. Þetta gerist æ ofan í æ og virðist lítið vera að marka ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Það er náttúrlega mjög mikið áhyggjuefni fyrir ICES að ekki skuli vera meira (Forseti hringir.) að marka ráðlegginar þeirra en raun ber vitni.