131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fiskveiðistjórnarkerfi.

232. mál
[15:29]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vitnaði í Alþjóðahafrannsóknaráðið og ég gat ekki betur heyrt en hann teldi það vera gagnrýnisvert að Norðmenn og Rússar hafi veitt umfram það sem Alþjóðahafrannsóknaráðið ráðlagði. (GAK: Ég benti á að veiðin væri að aukast þrátt fyrir það.) Já.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti á að Færeyingar hafi veitt umfram ráðleggingar ráðsins og telur það þeim til tekna. Ég skildi þetta sem mismunandi afstöðu til Alþjóðahafrannsóknaráðsins hjá hv. þingmönnum. (Gripið fram í: Nei.)

Varðandi það sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði um umhverfisverndarsamtökin er það rétt hjá honum að auðvitað þarf að fara varlega í umgengni við þau, þau eru okkur oft óþægur ljár í þúfu. Hins vegar verðum við að sætta okkur við það að við þurfum að búa við þau.

Það sem ég hef verið að reyna að undirstrika með því að vitna í þessa bók er að þeir aðilar sem eru hvað gagnrýnastir á fiskveiðar og á fiskveiðistjórnina eru jákvæðir í garð þess sem við höfum verið að gera hér á landi og þann árangur sem við höfum náð og telja hann betri en þann sem aðrir hafa náð á sama sviði.

Þetta kemur jafnframt í því hvernig staða afurða okkar er á mörkuðum. Afurðir okkar njóta virðingar vegna þess að menn líta þannig til að við höfum náð árangri með fiskveiðistjórnina, að hér sé um sjálfbærar veiðar að ræða. Það sem ég er að reyna að segja með þessu er að það skiptir máli, bæði vegna fiskstofnanna að við stöndum vel að fiskveiðistjórnuninni og séum raunsæ og varkár og það skiptir líka máli varðandi markaðsstarfið að það sé sjáanlegt út á við að við séum að byggja upp sjálfbærar (Forseti hringir.) veiðar og að neytendurnir viðurkenna það og borga okkur hærra verð fyrir vikið, frú forseti.