131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:36]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttir að það er nauðsynlegt að vandlega sé farið yfir þessi mál öll í heild sinni þegar svo alvarlegt slys verður eins og þessi bruni hjá Hringrás ehf. Það var mjög mikið fagnaðarefni hversu vel samhæfðir allir þeir voru sem komu að málinu, slökkvilið, lögregla og þeir aðilar aðrir sem þurftu að bregðast við því alvarlega ástandi sem skapaðist.

Vegna brunans á athafnasvæði Hringrásar fól ég Brunamálastofnun í gær að gera úttekt á brunavörnum og eldvarnaeftirliti hjá aðilum með sambærilegan eða hliðstæðan rekstur og Hringrás með vísan í ákvæði laga nr. 75/2000, um brunavarnir. Ég fól Brunamálastofnun að kanna í ljósi atvika hvort ástæða sé til að breyta lögum eða reglum um brunavarnir og eldvarnaeftirlit til að draga úr líkum á því að atvik sem þetta endurtaki sig og að stofnunin skoði sérstaklega hvort ástæða sé til að fyrirskipa nánari samvinnu við eftirlitsaðila til að tryggja skilvirkni í framkvæmd laga og reglna um brunavarnir.

Brunamálastofnun skal við þessa athugun hafa samráð við viðkomandi yfirvöld og eftirlitsaðila. Ráðuneytið væntir þess að niðurstaða Brunamálastofnunar liggi fyrir eigi síðar en 16. janúar nk. og tillögur til breytinga á lögum og reglum, sé ástæða talin til þess, ekki síðar en 15. febrúar.