131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:49]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég tel rétt að fara yfir málið og ég minni á fleiri bruna þar sem pottur hefur verið brotinn hvað varðar brunavarnir, m.a. á Blönduósi nú fyrir skömmu. Ég tel í þessu sambandi mjög nauðsynlegt að fara yfir þvingunarúrræði eftirlitsaðilanna.

Ef ég man rétt sagði slökkviliðsstjóri um þvingunarúrræðin að annars vegar mætti framkvæma á kostnað eiganda — það er ekki góður kostur fyrir slökkvilið að koma upp öðrum móttökustað ef viðkomandi starfsemi fer ekki að reglum — og hins vegar að loka starfseminni. Það er heldur ekki góður kostur. Það er óvíst að ástand hvað varðar brunavarnir, eins og t.d. hjá Hringrás, hefði skánað nokkuð þótt starfseminni hefði verið lokað.

Ég tel þess vegna mjög brýnt að komið verði á einhverjum vægari þvingunarúrræðum til að ná fram markmiðum reglugerðar um brunavarnir.