131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:00]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá háttvirtum þingmanni að það skiptir gífurlegu máli hvernig einstakar stofnanir koma út og einstök ráðuneyti en heildarniðurstaðan hlýtur samt sem áður að vera það sem maður byrjar á að skoða. Ég vil minna háttvirtan þingmann á að í máli mínu benti ég einmitt á að á það skorti að við fengjum upplýsingar um áætlaða stöðu einstakra stofnana í lok árs, þrátt fyrir að við bæðum um þær strax í byrjun október. Til að við getum velt fyrir okkur stöðu einstakra stofnana er auðvitað lágmark að við höfum þær upplýsingar fyrir hendi. Það vekur auðvitað upp ýmsar spurningar þegar svo langan tíma virðist taka að fá jafnsjálfsagðar upplýsingar. Ef fjárlögin væru unnin eins og á að vinna þau þá lægju þessar upplýsingar fyrir og væri miðað við þær. En því miður er fjárlagafrumvarpið ekki unnið þannig og það er hluti af hinum stóra vanda.

Ég benti einnig á það í ræðu minni var að viðhorf framkvæmdarvaldsins til fjárlagagerðarinnar hefur komið fram í umræðunni varðandi samanburð á ríkisreikningi, fjárlögum og fjárlagafrumvarpi, þ.e. að nota megi alls konar svokallaða óreglulega liði til að réttlæta að sá afgangur sem boðaður er í fjárlögum og fjárlagafrumvarpi er orðinn að halla þegar kemur að ríkisreikningi.