131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:03]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson féll í þá gryfju sem ágætir vinir mínir í stjórnarandstöðunni bægslast stundum í, þ.e. að gera okkur framsóknarmenn að hinu versta liði og aðalóvini þjóðarinnar. Ég geri athugasemd við þann málflutning sem kom fram í nefndaráliti og í ræðu háttvirts þingmanns, um að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum sé það Framsóknarflokkurinn sem komi í veg fyrir lækkun á svonefndum matarskatti og þjóðin geti kennt Framsókn um útgjöld vegna matvælaverðs.

Ég geri athugasemd við þessi ummæli. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að fara eigi í endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu. Sú vinna er fram undan. Því er þessi fullyrðing háttvirts þingmanns í besta falli gersamlega ótímabær. Eigum við ekki bara að bíða og sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu sem ríkisstjórnin fer í áður en slíkar fullyrðingar eru hafðar á lofti?