131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:06]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var vitanlega að fjalla um þær tillögur sem hér liggja fyrir varðandi næsta ár. En ef háttvirtur þingmaður er að boða það að Framsóknarflokkurinn ætli að beygja út af stefnu sinni varðandi matarskattinn á þeim vikum sem eftir eru af þingi þá fagna ég því sérstaklega. Þá skal ég feginn viðurkenna að þetta hafi verið ótímabærar yfirlýsingar.

Ég verð þó að vitna til þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði í spjallþætti fullum fetum að þetta næði ekki fram að ganga vegna andstöðu Framsóknarflokksins. Ég taldi mig því bera tíðindi sem væru þjóðinni alkunn. Ég fór bara yfir þau og hélt að hér væri ekkert nýtt. En það er þá nýtt í þessu máli, eins og mátti skilja á hv. þm. Magnúsi Stefánssyni og ég fagna því alveg sérstaklega, að það geti gerst á næstu klukkustundum, næstu dögum eða næstu vikum að Framsóknarflokkurinn komi í liðið. Við munum að sjálfsögðu öll fagna því ef Framsóknarflokkurinn kemst til vits í þessu máli.