131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:08]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er greinilega um það bil að taka gleði sína varðandi matarskattinn. Hún hefur greinilega tekið mið af þeim orðum sem hv. þm. Magnús Stefánsson lét falla um hann. Ég verð líka í því liði sem fagnar þegar að því kemur.

Háttvirtur þingmaður spurði mig hvort ég væri á móti því að auka barnabætur og afnema eignarskattinn. Ég svara því þannig að ég er á móti þeirri forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur valið í þessum efnum.

Það er ljóst að við erum að fjalla um fjárlög fyrir árið 2005 og hvorugt af þessu kemur þar við sögu. Það er ljóst að þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin leggur til eru upp á um 5 milljarða kr. Það væri hægt að forgangsraða þeim á annan hátt. Í ræðu minni gerði ég aðallega að umtalsefni að nýta mætti það svigrúm til að lækka matarskattinn.

Við í Samfylkingunni höfum boðað að við teljum að einnig beri að flýta því að hækka barnabætur. Ef það gæti verið til samkomulags við ríkisstjórnarmeirihlutann þá værum við auðvitað tilbúin að skoða það að barnabæturnar verði settar í forgang og hækki strax um áramót.