131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:14]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Háttvirtur þingmaður staðfestir enn það sem ég hef sagt, að þetta eru sambærilegir hlutir og við eigum þess vegna að geta borið þá saman. Það er hins vegar þannig, háttvirtur þingmaður, að við 1. umr. og jafnvel í fjölmiðlum hafa ýmsir haldið öðru fram. Ég er mjög ánægður með það að háttvirtur þingmaður skuli vera í liði með okkur sem segjum að þetta séu sambærilegir hlutir. Þannig er það og þannig eiga menn að umgangast þá.

Það er hins vegar nauðsynlegt fyrir háttvirtan þingmann að lesa þriðja kaflann í áðurnefndri skýrslu. Hann er ekki mjög langur. Hann hefst á bls. 17 og honum lýkur á bls. 20. Ég vona að háttvirtur þingmaður verði búinn að lesa þennan kafla þegar hann heldur ræðu sína á eftir en sá kafli er að mínu mati tileinkaður hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde. Ég vona jafnframt að háttvirtur þingmaður geti eftir lestur kaflans átt stutt spjall við hæstv. fjármálaráðherra og komið honum í skilning um það sem í kaflanum stendur.