131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:31]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég held nú áfram ræðu minni um nefndarálit vegna fjárlaga fyrir árið 2005 við 2. umr.

Fyrir þinginu liggja tillögur ríkisstjórnarinnar um verulegar breytingar á skattkerfi landsmanna sem fela í megindráttum í sér að lækka á tekjuskatt prósentuvís, lækka skatta á þeim sem hafa hæstar tekjur. Fyrir fjárlög næsta árs lítur þetta þannig út að tekjuskattinn á að lækka um 1% og það er sérstök lækkun á hátekjuskatti, úr 4% í 2%.

Þetta er kannski lýsandi dæmi fyrir áherslur ríkisstjórnarmeirihlutans í forgangsröðun til gæðanna í samfélaginu, þetta nýtist þeim sem hafa hæstar tekjur fyrir. Á meðan standa sveitarfélögin með verulega skerta tekjustofna, þeir málaflokkar sem þau fá frá ríkinu og þurfa að fjármagna aukast, með beinum og óbeinum hætti, en tekjustofnarnir eru líka ákveðnir af Alþingi þannig að sveitarfélögunum er sniðinn mjög þröngur stakkur.

Nú er það svo að ríki og sveitarfélög axla sameiginlega ábyrgðina á velferðarþjónustunni, þ.e. þeim verkefnum og þjónustu sem við viljum að samfélagið beri ábyrgð á. Hvort það er síðan ríki eða sveitarfélag sem annast framkvæmdina á því, á ekki að skipta meginmáli en það eru tveir aðilar sem bera þessa ábyrgð.

Þess vegna er það fyrirkomulag fullkomlega óásættanlegt að ríkisvaldið, annar aðilinn, geti í rauninni með einhliða aðgerðum markað hinum básinn, sveitarfélögunum, með lagasetningum á verkefnum og fjármunum. Ef ríkisvaldið telur sig nú vera þess umkomið að lækka tekjuskattinn um 1% og lækka þar með tekjur ríkissjóðs um nærri 5 milljarða kr. á næsta ári þá hefðum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lagt til að, nái það fram að ganga, verði sveitarfélögunum gert kleift að auka tekjustofna sína þar á móti.

Það frumvarp sem við höfum lagt fram í því efni lýtur að þeirri einföldu breytingu að rýmka heimildir sveitarfélaganna til álagningar útsvars um 1%. Að sjálfsögðu væri þessi eina aðgerð ekki nóg til þess að leysa tekjuvanda sveitarfélaganna, en engu að síður gæti þetta þó í ýmsum tilfellum létt undir með þeim og við erum þá áfram með þennan sameiginlega pott undir, ríki og sveitarfélögin, hvað sem tekjuskattinum líður .

Í öðru lagi leggjum við til aðrar áherslur í skattbreytingum. Við teljum að það eigi að endurskoða skattkerfið, taka á því heildstætt og það mun koma fram í umræðunni um skattafrumvarpið sem er sérstakt frumvarp sem er nú í meðhöndlun þingsins og er komið til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem við höfum lagt hér fram, leggjum við til að hlutfall fjármagnstekjuskattsins verði hækkað. Það er fullkomlega óeðlilegt að skattar á launafólk skuli vera nærri 40% en ef tekjurnar koma í formi fjármagns og arðgreiðslna þá séu þær tekjur skattlagðar miklu lægra en aðrar tekjur. Það er mjög óeðlileg skipan þannig að við leggjum til í okkar frumvarpi að sett verði skattleysismörk fyrir fjármagnstekjuskattinn, t.d. 120 þús. kr. sem viðmiðun fyrir einstakling á ári, þannig að fólk sem er með bara sjálfsagðan grunnsparnað verði ekki krafið um skattgreiðslur. En núna er það þannig að allir sem greiða fjármagnstekjuskatt greiða jafnan skatt hvort sem það er ellilífeyrisþeginn sem er að spara til að eiga nokkrar milljónir króna sér til tryggingar á lokaárum sínum eða stóreignamaðurinn sem er að raka að sér fjármagni, milljónum eða tugum milljóna króna, og þarf aðeins að greiða af því 10% skatt. Við viljum því að fólk hafi heimild til þess og eigi möguleika á að vera með ákveðinn sparnað, ákveðna fjármagnseign og arð af henni án þess að það sé skattlagt eins og nú er, en síðan komi skattlagning á meiri háttar tekjur af fjármagni sem skattleggist líkt og um launatekjur væri að ræða. Með þessu mundi skapast verulegur jöfnuður í samfélaginu hvað varðar skattheimtu. Þessa umræðu, skattaumræðuna í heild sinni erum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði reiðubúin til að taka.

Hin aðferðin sem ríkisstjórnin og meirihlutafllokkar hennar beita er einhliða lækkun á sköttum, tekjuskatti, sem kemur fyrst og fremst hátekjufólki til góða, en síðan koma notendagjöld sem við upplifum nú, hækkun á komugjöldum til heilsugæslustöðva, hækkun á skólagjöldum, hækkun á skólagjöldum við ríkisháskólana, nú um 40% .

Ef við rifjum upp 1. umr. fjárlaga þá minnir mig að komið hafi fram að framsóknarmenn hafi verið mjög efins um hvort þetta væri rétt tala og rétt hækkun. Og ef ég man rétt vildu hv. þingmenn framsóknarmanna fá tölulegar forsendur fyrir þessari hækkun áður en þeir léðu henni samþykki sitt.

Ég vil spyrja hv. formann fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson: Hefur slík töluleg skoðun á forsendum fyrir hækkun þessara skólagjalda eða innritunargjalda sem hér er verið að leggja til farið fram? Gjöldin eiga að byggjast á einhverjum tölulegum forsendum, einhverjum kostnaðarútreikningum, kostnaðarmati eða rauntölum í kostnaði. Liggur sú úttekt fyrir?

Er það ekki svolítið skrýtið ef þessi upphæð á að byggja á einhverjum rauntölum, kostnaðartölum sem háskólarnir hafa lagt fram, að hún skuli vera nákvæmlega jafnhá fyrir alla háskólana? Ég held að það sé mikilvægt áður en við afgreiðum þetta mál hér, þ.e. skólagjöld til háskólanna eða innritunargjöldin sem kölluð eru, að þær tölulegu forsendur sem þar eru að baki liggi fyrir í lögunum sem kveða á um þetta, ef þetta eiga að vera kostnaðargreindir liðir.

Ég vil undirstrika hér stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að við erum andvíg skólagjöldum í ríkisháskólum, með þeim er verið að mismuna fólki. (ÖS: Hvaða ríkisháskólum?)

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson veltir fyrir sér hinum háskólunum. Það er alveg hárrétt. Það er hægt að velta fyrir sér rekstri þeirra. Það er nefnilega svo að þeir virðast hafa meira eða minna sjálftökurétt inn í ríkissjóð. Þeir fá þar framlag, visst á nemanda, en hafa síðan frjálsar hendur með að innheimta skólagjöld.

Og það sem verra er og kom upp á fundi með ríkisendurskoðanda er að það er sáralítið eftirlit með fjárhag og ráðstöfun fjár þessara skóla, þessara svokölluðu einkaskóla, nánast ekki neitt af hálfu hins opinbera. En þó er varið umtalsverðu fjármagni til þeirra. Ég er ekkert að gefa í skyn að það sé ekki allt í lagi, en það ætti að vera skýlaus krafa að þessir skólar, sem fá að meginhluta og stórum hluta rekstrarfé sitt frá ríkinu, einkaháskólarnir, lúti sömu endurskoðunarreglum og kröfum og gilda um aðrar stofnanir sem fá fjárframlög frá ríkinu.

Frú forseti. Vegna umræðu um stöðu sveitarfélaganna vil ég árétta að við lögðum fram tillögu við afgreiðslu fjáraukalaga við 2. umr. um að veitt yrði aukið fjármagn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga upp á 700 millj. kr. til þess að mæta brýnustu þörf sveitarfélaganna, sem þýddi þá viðbót upp á einar 300 milljónir miðað við það sem meiri hlutinn lagði til við 2. umr. fjáraukalaga. Með sama hætti fyrir árið 2005 sjáum við ekki að í kortunum sé nein breyting á aðgerðum gagnvart sveitarfélögum. Við leggjum því til að nú þegar verði ákveðið að leggja til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að mæta þessum sértæka vanda sem mörg þeirra standa frammi fyrir vegna fólksfækkunar, vegna skyndilegra breytinga á tekjum íbúanna o.s.frv., 700 millj. kr. Að þeirri tillögu standa auk mín hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson, Guðjón A. Kristjánsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Helgi Hjörvar og Jón Gunnarsson. Við leggjum áherslu á að það sé ekki verið að bíða fram undir næstu áramót með að koma til móts við afar brýnan vanda sveitarfélaganna heldur verði ákvörðun um það tekin strax til viðbótar því að endurskoða þarf öll tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, sem núna virðast vera komin í hnút vegna beinnar sveltistefnu ríkisins gagnvart sveitarfélögunum, sem er alveg óþolandi.

Frú forseti. Ég kem svo ítarlegar að fleiri þáttum varðandi þetta fjárlagafrumvarp í seinni ræðu minni í dag.