131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:45]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi að það væri satt hjá hv. þm. að ekki væri verið að gera það.

Hvað er 40% hækkun á skólagjöldum til ríkisháskólanna? Er það ekki skerðing? Er það ekki aukið álag á fjárhag viðkomandi nemenda? (EOK: Er það skerðing?) Já, það er skerðing á velferðarkerfinu þegar verið er að auka álögur á fólk sem sækir þar þjónustu.

Þarna skilur kannski á milli okkar og þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem fylgja þeim að málum. Þeim finnst allt í lagi að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir. Hver skal vera sinnar gæfu smiður. En það er ekki stefna Vinstri grænna. Við viljum samfélagslega ábyrgð á ákveðnum grunnþáttum samfélagsins.

Má ég minna á að samgöngumálin eru líka hluti velferðarkerfisins. Á Vestfjörðum og Norðausturlandi eru slæmar samgöngur sem torvelda sókn til aukinna lífskjara. Samgönguáætlun á að skera niður um nærri 2 milljarða króna á næsta ári til þess að mæta þessum skattalækkunum. Ég spyr hv. þingmann og formann fjárlaganefndar: Er það ekki niðurskurður að skera samgönguáætlun niður um 1.700 milljónir í ár, 1.900 milljónir á næsta ári og 2.000 milljónir á þar næsta ári? Er það ekki niðurskurður?