131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:46]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málflutningur hv. þingmanns um að verið sé að skerða framlög til velferðarkerfisins, eins og kemur fram í nefndaráliti hans og málflutningi er bara ein bullandi froða. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi. Það kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu að verið er að stórauka framlög til velferðarkerfisins og þess vegna eru ekki nokkur rök fyrir þessari fullyrðingu. Svo er talað um hin ýmsu mál eins og vegamál o.fl. í þessu samhengi. Ég hef yfirleitt ekki talið vegamál til velferðarkerfisins. Ég veit ekki hvernig Vinstri grænir skilgreina hugtakið velferð og velferðarkerfi. Ég hef hingað til haldið að það væru m.a. málaflokkar eins og menntamál, heilbrigðismál og félagsmál.

Hæstv. forseti. Þessi málflutningur því ein bullandi froða eins og ég segi og hann stenst ekki, því miður.