131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:47]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að íbúar á Vestfjörðum, Norðausturlandi og reyndar alls staðar líti nú á samgöngurnar sem grunnþátt velferðarkerfisins, fjarskiptin, og það að geta komist í síma. Ég held að það sé einn af grunnþáttum velferðarkerfisins. Þarna greinir okkur þá í grundvallaratriðum á.

Ég vil benda á Landspítala – háskólasjúkrahús. Er ekki gert ráð fyrir að skera þar niður um 600 (Gripið fram í.) milljónir frá næsta ári? Hafa ekki raunfjártölur fjárveitinga til Landspítala – háskólasjúkrahúss staðið í stað um langt árabil? (Gripið fram í: Hækkað.) (EOK: Hvað er upp og hvað er niður?) Það væri gott að það væri á réttri leið. Þó að hv. stjórnarþingmönnum finnist sárt að þurfa að viðurkenna þetta og reyni að berja höfðinu við steininn hvað það varðar og reyni að kalla hlutina öðrum nöfnum þá er það niðurskurður þegar verið er að skerða fjárveitingar til stofnana eða þær fá ekki eðlilega fjármuni miðað við þau verkefni sem þeim eru falin. Því miður er þetta nú svo.

Stefna þessarar ríkisstjórnar er að prósentvís skattalækkanir koma fyrst og fremst þeim til góða sem hafa hæstar tekjurnar. Á hina sem hafa þær lægstar eru lögð aukin komugjöld og þurfa þeir að taka aukinn þátt í að greiða fyrir velferðarþjónustuna. Því miður er þetta stefna ríkisstjórnarinnar í þessum fjármálum og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum andvíg henni. Við teljum að styrkja og efla eigi hinn samfélagslega grunn og almannaþjónustuna.