131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:17]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er einn helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum og hann svaraði spurningu minni um það hvort ekki væri heppilegasta skattalækkunin við þessar aðstæður að lækka virðisaukaskatt af matvælum algjörlega ærlega. Hann sagði já. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að lækka matarskattinn.

Nú vill svo til, frú forseti, að það er stefna allra flokka á þingi nema eins. Samfylkingin hefur lagt fram frumvarp um það. Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir því í kosningabaráttunni og reyndar tekið undir það á þingi. Formaður Frjálslynda flokksins hefur tekið undir þetta og forustumenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa tekið undir þetta. Það er bara einn flokkur á alþingi Íslendinga sem kemur í veg fyrir að matarreikningur íslenskra heimila sé lækkaður um 5 milljarða á ári og það er Framsóknarflokkurinn. Það er sorglegt hlutskipti flokks sem stofnaður var af alþýðufólki til sveita að það skuli vera sá flokkur sem streitist gegn því að lækka matarreikninga íslenskra alþýðuheimila.