131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:18]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að minna á að Sjálfstæðisflokkurinn er í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Við höfum lagt á það höfuðáherslu að vera ærlegir í okkar samstarfi. Það hefur komið fram og ekkert launungarmál að við höfum samið um tekjuskattsbreytingarnar, við höfum sagt frá því að það væri til skoðunar og að verið væri að fara í gegnum breytingarnar á virðisaukaskattinum og flokkarnir ætluðu sér að leita sátta og samstöðu um það mál. Við höfum sagt það opinberlega, það er ekkert launungarmál.

Meðan við sjálfstæðismenn erum í samstarfi við einhvern stjórnmálaflokk erum við það ærlega. Við leitum samstarfs og sameiginlegrar niðurstöðu við þann flokk sem við vinnum með. Þó að það taki okkur einhvern tíma að ná þeirri niðurstöðu munum við gera það, segjum frá því og teljum það ekkert feimnismál.